04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í C-deild Alþingistíðinda. (2712)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mig furðar á að heyra það hvað eftir annað af vörum hv. frsm. (ÁJ), að jeg hafi tekið svo illa í þetta mál, að hv. landbn. hafi verið neydd til að snúast í því. Jeg mælti ekki eitt orð á móti dagskrá hv. nefndar, sem hún bar fram við 2. umr., að landsstjórnin skyldi fyrir næsta þing undirbúa frv. um þetta efni, og fara þar eftir löggjöf, annara landa. En jeg benti á, að það væru órjettmætar aðfinslur, að gildandi lögum væri linlega framfylgt. Ef háttv. nefnd getur haft nokkuð út á mig eða mína framkomu að setja í þessu máli, þá er það það, að jeg hefi opnað augu manna fyrir því, að hún hefir ekki skilið lögin rjett. Orð laganna, „með ráði dýralæknis“, gera það að verkum, að ekki er hægt að banna innflutning á vörum eftir þeim, ef dýralæknir leggur á móti. Jeg studdi mig um þetta atriði við skýringu þá, er jeg gaf á þessum orðum í fyrra, og enginn hafði þá neitt að athuga við. — Annars verð jeg að segja, að mjer virðist hv. landbn. hafa athugað þetta mál mjög lítið. Strax, er fundi var slitið eftir 2. umr. málsins, var nál. búið til og brtt. skömmu síðar, án þess að fram færi nokkur nefndarfundur. Jeg hygg einnig, að enginn geti komist hjá því að álíta, að hv. nefnd hafi lítið athugað, á hvaða vörum skyldi banna innflutning. Hvaða ástæða er t. d. til að banna innflutning á soðnum ostum? (ÁJ: Niðursoðnum? — ). Jeg hjelt að hv. landbn. kannaðist við soðna osta, eins og t. d. mysuost. — Auk þess virðist mjer, að vörur eins og smjör og egg sjeu hættulausar. Þær eru aldrei fluttar upp um sveitir, og því engar líkur til að þær nái að sýkja búfjenað, þótt sýkin geti borist með þeim, sem jeg efast stórlega um. Þá er og útlent fiður, sem talsvert er notað í kaupstöðum, einkum af hinu fátækara fólki. Við flytjum út allmikið af dún, sem er mjög dýr vara, en inn aftur ódýrari fiðurtegundir. Jeg efast um, að það gæti borgað sig fyrir okkur að banna innflutning á fiðri, a. m. k. kæmi það mjög hart niður á ýmsu fátæku fólki. — Þá á að banna innflutning á strávörum og burstavörum, nema með sjerstökum skilyrðum, og held jeg, að það sjeu engin tiltök. Enda skildist mjer í upphafi á hv. flm. þessa frv., að þeir hefðu gengið svo langt sem þeir álitu framast unt um innflutningsbönnin, og hafi þeir ætlað hv. landbn. að sníða af það, sem tekið var framar en góðu hófi gegndi. — Hv. 1. þm. Reykv. gerði þá fyrirspurn til mín, hvort mjer sýndist ekki erfitt að framkvæma þetta frv., ef það yrði að lögum. Jú, jeg held að það sje afar erfitt. Jeg vil einnig benda á, að það er ekki síður í millilandaviðskiftum að leggja bann á vörur, nema hægt sje að benda á einhverja mjög knýjandi ástæðu til þess. Og um margar þessara vörutegunda hygg jeg, að það yrði ávalt álitið óþarft. — Jeg hygg, að hv. nefnd geri málinu ekki mikinn greiða með því að hraða því svo mjög. Því að eins og það er nú útlits, skil jeg ekki annað en að hv. Ed. neyðist til að breyta því svo, að það verði að koma hingað aftur, og þá fer að verða tvísýnt um, hvort það dagar ekki uppi.