08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

53. mál, strandferðaskip

Jón Auðunn Jónsson:

Það er rjett hjá hv. flm., að þetta frv. er gamall kunningi. Jeg bjóst þó tæplega við, að slíkt frv., sem fer fram á stórfelda lántöku handa ríkisjóði, mundi koma frá mönnum, sem beita sjer móti lántöku handa Landsbankanum til þess að styrkja atvinnuvegina.

Því neitar enginn, að æskilegt væri að bæta strandferðirnar, þó aðeins í fáum hjeruðum, ef fje væri fyrir hendi. Þó er það hin mesta blekking að halda því fram, að samgöngur kringum land sjeu lakari nú en fyrir stríð. Það var sýnt með skýrslu í fyrra, að við höfum margfalt fleiri viðkomustaði kringum land og miklu betri skip en áður var. Það er rjett, að einstök hjeruð munu hafa þörf fyrir auknar samgöngur. Svo mun t. d. vera um Suður-Múlasýslu, hluta af Norður-Múlasýslu, og að einhverju leyti Þingeyjarsýslu. Að vísu virðist svo sem þörfin á sumum þessum stöðum sje ekki mjög mikil. Má t. d. nefna Mjóafjörð, þar sem hv. flm. er vel kunnugur. Þar kom Esja 10 sinnum s. l. ár, en flutningsgjald þaðan í þessum 10 ferðum var samtals 305 kr., eða um 30 kr. til jafnaðar fyrir hverja ferð.

Það, sem mjer finst samgmn. þurfi að athuga áður en hún tekur afstöðu til þessa frv., er í fyrsta lagi, hvort ekki er hægt að bæta úr samgönguþörfinni á ódýrari og hagkvæmari hátt en hjer er lagt til. Jeg get fullyrt, að á mörgum stöðum koma flóabátar atvinnurekstri hjeraðanna að miklu meira gagni en stór skip, sem sjaldan eru á ferðinni. Það verður jafnan að leggja áherslu á að koma vörunum sem fyrst á markað, og það verður best int af hendi með flóabátum, sem eru ódýrir í rekstri. Í öðru lagi þarf að athuga, hvað bygging slíks skips, sem hjer er farið fram á, kostar, og sömuleiðis gera áætlun um árlegan reksturshalla. Síðustu árin hefir reksturshalli á Esju verið frá 140–270 þús. kr., og hefir hún þó ekki gengið nema 8–10 mánuði ársins. Ef annað skip kæmi, mundi tekjuhalli hennar vaxa, og mundi tekjuhalli beggja skipanna varla verða minni en 400 þús. kr. árlega. Í sambandi við þetta verður að athuga, hvaða akvegabætur mundu bæta úr brýnustu þörf, bæði innan hjeraðs og milli hjeraða. Nú er áformað vegakerfi milli Norður- og Suðurlands, og þegar það er komið í framkvæmd, hverfur vafalaust þörf til bættra samgangna á sjó til mikilla muna. Þeir, sem vilja ferðast milli þessara landshluta, taka vafalaust bifreiðar fram yfir skip, enda verður það ódýrara. Eftir núgildandi taxta um fargjöld með bifreiðum langar vegalengdir, lætur nærri, að fargjaldið eitt sje hið sama og fargjald með skipum. En skipsferð, t. d. til Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu, tekur minst 3–4 daga, svo að við fargjaldið bætist fæðiskostnaður og tímatap. Ferðakostnaður verður því vafalaust minni, ef farið er í bifreiðum, og auk þess þykir flestum, ef ekki öllum, þægilegra að ferðast á landi en sjó. Þar sem hjer er um mikið fjárhagsatriði að ræða, verður að athuga, hvaða verklegum framkvæmdum brýnust nauðsyn er á að hrundið verði í framkvæmd um næsta árabil. Jeg held, að engum geti blandast hugur um, að það er margt, sem ganga verður fyrir auknum strandferðum. Jeg skal aðeins nefna, að við eigum sáralítið af brúklegum höfnum fyrir fiskiflota okkar. Okkur vantar höfn við Snæfellsnes, en þar er mjög aflasælt og myndi höfn þar auka fiskframleiðslu og minka tilkostnað við veiðina stórlega. Sömuleiðis vantar ýmsar endurbætur á Vestfjörðum. Á s. l. ári voru gerðar nokkrar endurbætur á höfninni á Akranesi, en áður höfðu Akurnesingar orðið að gera báta sína út frá öðrum veiðistöðvum. Nú geta þeir haft bækistöð sína heima. Og hver er árangurinn? Þeir hafa fiskað betur og aflans orðið miklu meiri not. Þeir fullyrða, að þessi endurbót borgi sig fullkomlega á þessari einu vertíð. Þá er bráðnauðsynlegt að leggja síma. Vestfirðingar, og sjálfsagt fleiri, hafa beðið mikið tjón á atvinnuvegi sínum, vegna símaleysis. Þá verður líka að gera sjer hugmynd um, hve miklar tekjur líklegt er að ríkissjóður hafi næstu ár og hve mikil útgjöld hann þolir. Jeg hygg, að öllu athuguðu, að órjett sje að samþykkja þetta frv., sem hjer liggur fyrir. Og mig furðar stórlega, að það skuli koma frá mönnum, sem segja og meina, að ekki beri að taka stór lán erlendis handa ríkissjóði á næstu árum. — Hv. flm. sagði, að samþyktar hefðu verið áskoranir um bættar samgöngur á mýmörgum þingmálafundum. Jeg hefi farið yfir allar þingmálafundargerðir, sem hjer eru, og ekki fundið samþyktir um þetta efni nema úr þrem hjeruðum. Í tveimur af þessum hjeruðum eru það flm. sjálfir, en ekki fundarmenn, sem bera fram slíka tillögu. (SvÓ: En hverjir samþyktu?) Það var samþ. með samhljóða atkv.; en að öðru leyti sjest ekki glögt, hvernig atkvgr. hefir fallið. Það getur hafa verið samþ. með samhljóða atkvæðum tillögumanna og eins manns að auki. Aðeins í einni þingmálafundargerð, úr Dalasýslu, er tekin fram ósk um auknar strandferðir, ef fjárhagur landsins leyfir það. Þetta mun eiga að skiljast þannig, að ekki skuli taka lán til byggingar nýs skips, heldur skuli taka fjeð af tekjuafgangi fjárlaganna. Hinsvegar er í þrem þingmálafundargerðum samþ. eindregin mótmæli gegn byggingu nýs strandferðaskips.

Þetta var það, sem jeg vildi beina til hv. nefndar, henni til athugunar, áður en hún afgreiðir málið.