23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Jón Ólafsson):

Jeg get verið stuttorður að þessu sinni, því að jeg þarf litlu að svara hv. frsm. meiri hl., því að þrátt fyrir forsvaranlega mikla kappgirni hans, hefir þó samviskusemi og greind hamlað honum frá því að fara mikið út í rök mín. Jeg get að mestu leyti látið honum ósvarað, því að hann gerði enga tilraun til að hrekja aðalröksemd mína: að samgöngur eru tiltölulega miklu betri hjer á sjó en landi. — Hv. frsm. mintist á, að mikla karlmensku þyrfti til þess að fella þetta frv. Það er altaf gott að vera kendur við karlmensku, en jeg held, að mesta karlmensku þurfi til að samþykkja það, a. m. k. fyrir þm. þeirra kjördæma, sem engar samgöngur hafa á sjó og litlar á landi.

Jeg er fyllilega sammála hv. 1. þm. Reykv. um, að með þessari skipsbyggingu sje verið að fara út af rjettri braut. Því að fari landið að reka tvö strandferðaskip, er hætt við, að enn lengri bið verði á, að það komist í framkvæmd, sem fyrir okkur báðum vakir, að Eimskipafjelagið taki að sjer strandferðirnar á sínum tíma. Einnig má minna á, að eins og nú er, tekur fjelagið fullan þátt í strandferðunum. Á ferðum sínum til útlanda koma skip þess í báðum leiðum við á fjölda hafna kringum land, t. d. oftast á flestum höfnum á Austfjörðum. Jeg hefi ekki áætlun við hendina, en jeg hygg að viðkomur Eimskipafjelagsskipanna sjeu frá 10–20 á ári á flestum höfnum austan lands og norðan. Þó geri jeg ráð fyrir, að á sínum tíma megi koma þessum ferðum miklu betur fyrir. — Meira hefi jeg ekki um málið að segja, og vænti þess, að það fái nú þann dóm, er því er ætlaður. Jeg legg vitanlega mjög mikla áherslu á, að málið verði felt. En ef þjóðinni vex svo fiskur um hrygg á næstu árum, að hún geti veitt sjer þetta, án þess að draga úr nauðsynlegri framkvæmdum, mun jeg fús að taka málið til yfirvegunar á ný.