29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í C-deild Alþingistíðinda. (2911)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 4. landsk. sagði, að sjer yxi ekki svo mjög í augum fjárframlag ríkissjóðs til strandferðaskipsins, vegna þess að samgöngur bæru sig ekki reikningslega sjeð hjá ríkissjóði.

En þar sem líklegt er, að rekstrarkostnaður skipsins muni nema 2–300 þús. kr. á ári, þá finst mjer þó, að minna geti það ekki verið en að hv. þm. athugi, hvar taka eigi fje þetta. Af brtt. hv. fjvn., sem verða hjer bráðum til umr., sjáum við hvert stefnir. Kostnaðurinn við strandferðaskipið mundi eflaust verða þess valdandi, að draga yrði seglin saman á öðrum sviðum, og þar, sem síst skyldi, því að þetta mundi ganga aðallega yfir samgöngubæturnar innanlands. Þess vegna get jeg ekki fylgt þessu máli nú, þótt jeg hinsvegar viðurkenni, að það sje nauðsynlegt að bæta við einu strandferðaskipi og jafnvel fleirum. En við getum það ekki sem stendur, vegna fjárhags ríkisins.

Þá gat hann þess, sami hv. þm., að jafnhliða og við bættum við einu strandferðaskipi, mætti fella niður styrk til bátaferða á flóum, fjörðum og vötnum. En jeg held, að sá sparnaður nemi svo litlu, að óþarft sje að reikna með honum. Flóabátastyrkurinn er mestmegnis veittur til þeirra staða, sem strandferðaskipin mundu sjaldan eða aldei koma á. Þó að við gætum eignast strandferðaskip, sje jeg ekki, hvernig hægt væri að fella niður styrk til Borgarnesbátsins, eða til Ísafjarðarbátsins. Það væri heldur ekki hægt að taka styrkinn af Rangæingum, sem þeim er veittur árlega, til þess að halda uppi ferðum milli Vestmannaeyja og meginlands. Ekki mundi gerlegt að fella niður styrk til Vestur-Skaftfellinga í þessu skyni. Þá mundi og Hvalfjarðarbáturinn verða að halda sínum styrk, sömuleiðis Grímseyjarbáturinn, að jeg ekki nefni Lagarfljótsbátinn, og svona mætti halda áfram að telja, sem sýnir, að flóabátana verður að halda áfram að styrkja, þrátt fyrir þó að bætt verði við strandferðaskipi. Að vísu skal jeg játa, að eitthvað mundi sparast á Breiðafjarðarbátnum, en það er líka það helsta, sem hægt er að reikna með, en mundi aldrei nema því, sem auka verður styrk til flóa- og fjarðabáta, þó að strandferðir batni.