18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

48. mál, notkun bifreiða

Pjetur Þórðarson:

Mjer þykir, sem um nokkuð snögg umskifti sje að ræða með brtt. nefndarinnar. Jeg get ekki í fljótu bragði sjeð, að það sje rjett eða sanngjarnt að hækka tryggingarupphæðina svona mikið. Tryggingargjöldin hljóta þá jafnframt að hækka, og mjer skilst, að það hljóti að hafa töluverð áhrif á fjárhag þeirra manna, sem bifreiðar eiga, og að þetta hljóti að koma fram í auknum fargjöldum og flutningsgjöldum.

Nauðsyn þessa er jeg heldur ekki sannfærður um. í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu munu nú vera um 20 bifreiðar, og mjer er ekki kunnugt um nema eitt slys, sem þó varð ekki að verulegu slysi. Hinsvegar þykja almenningi — sem eðlilegt er — nógu há fargjöld með þessum bifreiðum, og það kemur sjer illa að verða nú enn harðar úti í þeim efnum.

Jeg verð því að vera á móti þessari brtt. nefndarinnar og vænti þess, að hv. deild hugsi sig vel um áður en hún samþykkir þessa hækkun.