25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (3244)

107. mál, smíði brúa og vita

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þáltill. á þskj. 292 skilst mjer vera sprottin af því, að hv. flm. hafi heyrt því fleygt, að smíða ætti erlendis brú á Hvítá í Borgarfirði. Það er rjett, sem hv. flm. (JBald) sagði, að jeg var fyrir alllöngu síðan spurður að því, hvort hæft væri í þessu, en jeg svaraði eins og satt var, að jeg vissi ekkert um það þá, vegna þess, að enn þá væri ekkert ákveðið um það, hvenær brúin yrði smíðuð. En nú er málið komið á annan rekspöl en það var áður, þar sem nú er ekki gert ráð fyrir hengibrú, eins og áður var, heldur steinbogabrú, með 2 steinbogum og stöpli í miðri á. En slík brú verður ekki smíðuð erlendis. Það hefði aðeins getað orðið, ef um hengibrú hefði verið að ræða. En vegamálastjóri hefir sagt, að slík brú væri svo löng, að engin smiðja hjerlend mundi geta tekið að sjer smíði á henni. Og hann komst ennfremur að þeirri niðurstöðu, að steinbogabrú yrði ódýrari. Það, sem enn þá er eftir að rannsaka, er, hvort hægt sje að hafa stöpul í miðri á, svo tryggilegt sje. Jeg vona, að hv. flm. sjeu með þessum upplýsingum best leystir undan þeim ótta, sem þeir virðast hafa haft fyrir því, að brúin yrði smíðuð erlendis.

Að öðru leyti gengur þáltill. út á það: 1) að skora á ríkisstjórnina að láta smíða hjer á landi brýr og vita, sem fyrirhugað er að byggja, og 2) að nota áhaldasmiðju ríkissjóðs til nýsmíða og aðgerða, er landið þarf að láta framkvæma. Tel jeg, að þetta sje alveg sjálfsagt, ef það er hægt, án þess að dýrara verði ríkissjóði, svo að um muni. En jeg veit, að hv. flm. er kunnugt um það, að sumt af þessu verður að framkvæma erlendis, svo sem smíði ýmsra vitatækja, vegna þess, að ekki er hægt að smíða það hjer. En til þess að geta enn betur gert þetta, og til þess að öðlast betri þekkingu á þessu sviði, þá hefir aðstoðarmaður vitamálastjóra verið sendur til Stokkhólms, til þess að kynna sjer gerð vitatækja, svo að við verðum færari um að framkvæma slíkar smíðar hjer á landi.

Um síðari liðinn, að nota áhaldasmiðju ríkisins sem mest til allra aðgerða, þá get jeg lýst yfir því, að það hefir verið gert, eftir því sem fært hefir þótt. Þessu til sönnunar skal jeg leyfa mjer að lesa upp kafla úr brjefum frá vegamála- og vitamálstjóra. Vitamálastjóri segir svo:

„. . . að jeg undanfarin ár hefi látið smíða hjer á landi alt til vitanna, sem hægt hefir verið að smíða hjer á viðunandi hátt og með hæfilegu verði, og að jeg hefi að öllu jöfnu notað áhaldasmiðju ríkissjóðs“ — þar er væntanlega átt við smiðju vegagerðanna — „jafnhliða verkstæði landssímans og verkstæði landsvitanna við allar þær viðgerðir og þau nýsmíði, sem hægt hefir verið að vinna þar“.

En vegamálastjóri segir svo:

„Hingað til hafa þar verið smíðaðar allar járnbrýr síðan 1912, öll járnhandrið á steypubrýr, þar er gert við allar bifreiðar og vjelar vegagerðanna, þar eru allir vagnar smíðaðir og margt fleira. Þar er og gert við flest áhöld vegagerðanna að vetrinum. Auðvitað er stundum hentugra að fá sumt smíðað eða við gert í öðrum smiðjum bæjarins, sumpart af því, að kostur er þar stundum á ódýrari akkorðsvinnu, sumpart af því, að það getur ekki borgað sig að hafa í áhaldasmiðjunni kunnáttumenn á öllum sviðum.

Rjett til þess að gefa nokkra hugmynd um það, hve lítið það er, sem þarf að koma til smíða annarsstaðar, skal jeg upplýsa, að í fyrra námu reikningar þeir, er við greiddum annari vjelasmiðjunni hjer fyrir ýmsar aðgerðir og smíði, samtals um 1260 kr., og var af því kostnaður við logsuðuaðgerðir kr. 231,00, en vinnulaun við aðra smíði kr. 653,00, — mest rennismíði og önnur fín smíði, sem ekki eru áhöld til í smiðjunni. Við hina vjelsmiðjuna höfum við ekkert skift, og munu reikningarnir hafa verið eitthvað svipaðir þessu undanfarin ár. Auk þess kom jeg fyrir í ákvæðisvinnu hjá 2–3 járnsmiðjum hjer í bæ smíði vagnajárna og skeifnasmíði og einhverju fleira smávegis fyrir nokkur hundruð krónur, af því að jeg taldi það hagkvæmara en að ráða sjerstakan smíð í áhaldasmiðjuna —“.

Þetta eru aðalupplýsingarnar, sem þessir starfsmenn gefa. Jeg held, að ekki sje hægt að segja annað en að í þessu efni hafi alt verið gert, sem hægt er. En þar sem fyrri liður till. bindur ekki neitt við það, að brýr og vitar sjeu smíðuð í áhaldasmiðju ríkisins, þá hefi jeg ekkert við þann lið að athuga. Mjer skilst á hv. flm. (JBald), að hann vilji láta leita útboða um þessa hluti sem aðra, og taka þá innlendu boðunum, ef hægt er að annast þessa smíð hjer innanlands. En þetta er líka meining vitamála- og vegamálastjóra. Jeg hefi því ekkert á móti því, að þessi liður verði samþyktur. Um hinn síðari liðinn hefi jeg leitað álits og upplýsinga þeirra, er jeg las áðan upp, og jeg vænti þess, að hv. flm. telji með þessum brjefum upplýst, hvernig farið hefir verið að að undanfömu; býst jeg við, að eins verði farið að framvegis.

Um eignir starfsmanna ríkisins í einstökum fyrirtækjum er jeg lítið kunnugur. Jeg veit, að vitamálastjóri á í h.f. „Ísaga“. Hann kveðst hafa komið því hlutafjelagi á stofn til þess að spara vitunum fje. Jeg veit ekkert um það, hvort áhöld hafa verið lánuð úr smiðju ríkisins, en jeg sje ekkert á móti því, að það sje gert, ef hægt er að vinna verkið ódýrara annarsstaðar, en þar vantar áhald, sem til er í smiðju ríkisins. Þá spurði hv. flm., hvað vitarnir eyddu miklu af gasi. Jeg get ekki upplýst það nú, en mun geta gert það síðar, ef hv. flm. æskir þess.

Jeg held, að ræða hv. flm. hafi ekki gefið tilefni til frekari andsvara. En samkvæmt reynslu þeirri, sem jeg fekk áðan í öðru máli, þá þori jeg ekki annað en biðja hæstv. forseta (MT) í heyranda hljóði um orðið aftur, áður en jeg sest niður, því að vera má, að jeg þurfi að taka aftur til máls.