13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (3410)

102. mál, rannsókn á hafnarbótum og vörnum gegn snjóflóðum

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þessi þáltill. fer fram á að láta rannsaka hafnarbætur í Hnífsdal og á Vopnafirði, þegar á þessu sumri, auk þess, sem rannsaka á jafnhliða snjóflóðahættuna í Hnífsdal.

Nú er það öllum vitanlegt, að stjórnin hefir ekki ótakmarkaðri aðstoð á að skipa í þessu efni. Það er aðeins vitamálastjóri og aðstoðarmaður hans. Að vísu var ráðinn aukamaður s. 1. ár til bráðabirgða. En af því að stjórnin hefir úr svo litlu fje að spila, hefir verið reynt að borga honum með því, að hlutaðeigandi hjeruð, sem óskuðu eftir aðstoð hans, hafa greitt að nokkru leyti laun hans.

Þess vegna vildi jeg skjóta því til nefndarinnar, hvort nokkrar líkur sjeu til, að þessi hjeruð vilji greiða þennan kostnað við rannsóknina. Það á að byggja stóran vita í sumar, og við það verður aðstoðarmaðurinn upptekinn, og vitamálastjórinn á ferðalagi til þess að líta eftir vitum landsins og sjómerkjum. Það verður því ekki um annað að gera en að hafa þennan bráðabirgðamann áfram, en það verður því aðeins hægt, að hjeruðin leggi eitthvað fram til þess að launa honum. Auk þess þarf þessi maður á meiri eða minni aðstoð að halda við mælingarnar, sem vanalegt er, að hjeruðin leggi bæði til og kosti.

Sem sagt: jeg vildi heyra álit hv. allshn. um þessa kostnaðarhlið málsins.