24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í D-deild Alþingistíðinda. (3447)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Halldór Stefánsson:

Hv. andstæðingingar þál., sem hjer er um að ræða, byggja mótstöðu sína aðallega á tvennum ástæðum. Annarsvegar á mótmælum rektors hins almenna mentaskóla, en þau verður að telja einkisverð, þar sem hann er hjer ekki rjettur aðili, og hinsvegar á mótmælum háskólaráðs Íslands, sem reisir mótmæli sín á því, að háskólalögin veiti ekki rjett öðrum skóla en hinum almenna mentaskóla til þess að útskrifa stúdenta. Og hæstv. kenslumrh. (MG) felst á þessa skoðun háskólaráðsins. Það er nú upplýst, að þessi skoðun háskólaráðsins er bygð á orðalagi 17. gr. háskólalaganna, þar sem sagt er, að hinn almenni mentaskóli í Reykjavík, eða annar skóli honum jafngildur hafi rjett til þess að útskrifa stúdenta. Í þessari grein er sú framsýni, að ráð er gert fyrir því, að annar skóli geti haft þennan rjett, og því er það rangt að halda því fram, að hinum almenna mentaskóla sje ætlað að hafa einkarjett til þess að útskrifa stúdenta.

Jeg lít svo á, að nemendur þeir, sem um er að ræða, geti fullnægt algerlega orðalagi nefndrar lagagreinar, því að með leyfinu 1924 hafi framhaldsnámsdeildin við Akureyrarskólann í rauninni verið löggilt sem lærður skóli. En um það atriði, hvort hann sje jafngildur hinum almenna mentaskóla, segir prófið. Það virðist því í sjálfu sjer ekki nauðsynlegt að fá þetta leyfi nú, það ætti að leiða af sjálfu sjer, en það er aðeins farið fram á það til þess enn betur að árjetta það, að skólinn hafi fengið rjett til þess að útskrifa menn, sem hafi rjett til háskólanáms.

Álit háskólaráðsins nú og frá því í fyrra liggur því miður ekki fyrir hjer. En jeg hefi sjeð svar háskólaráðsins við fyrirspurn þm. Eyf., það sem hjer hefir verið rætt um, og eftir því sem mig minnir, þá var það alt öðruvísi en nú. Það var þá allóákveðið og ekki einróma eða í einu lagi. Hvorttveggja hlutinn þó með fyrirvara. Annar hlutinn sá ekkert á móti því, að nemendur Akureyrarskólans fengju þennan rjett til háskólanáms, ef það kæmi ekki í bága við háskólalögin. Hinn hlutinn taldi það ekki ríða í bága við lögin að veita skólanum þennan rjett, og var því ekki mótfallinn, ef nemendurnir fengju tilsvarandi þekkingu og ákveðið er um nemendur hins almenna mentaskóla. En reynslan í því efni er vitanlega prófið.

Nú gengur álit háskólaráðsins eindregið í þá átt, að það ríði algerlega í bága við háskólalögin að veita Akureyrarskóla þennan umrædda rjett, þótt þeir fengju leyfi til að taka próf þar. Mjer dettur ekki í hug að leiða neinar getur að því, hvernig á þessum mismun á áliti háskólaráðsins stendur, en af því sem jeg nú hefi sagt, skal jeg taka það fram, að það er álit mitt, að nemendur frá framhaldsdeild Akureyrarskóla hafi fullan rjett til háskólanáms, ef þeir standast fullnaðarpróf við skólann, og að þeir hafi fullan rjett á að prófið fari fram þar, með fulltryggu eftirliti auðvitað. Af þeim ástæðum álít jeg dagskrártill. óþarfa, en þó rjettmæta, til frekari staðfestingar.