25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3509)

114. mál, Landsbanki Íslands setji á fót útibú í Vestmannaeyjum

Jóhann Jósefsson:

Jeg tel mjer skylt, þótt mjer hafi ekki verið falið þetta mál til flutnings hjer á þingi — af því að málið snertir mitt kjördæmi —, að segja nokkur orð um það alment.

Það mun hafa verið 1919, að útibú Íslandsbanka var stofnað í Vestmannaeyjum. Áður hafði starfað þar sparisjóður, sem var stofnaður 1893 og var orðinn um 312 þús. kr. á því ári, sem útibú Íslandsbanka tók til starfa. Endurteknar tilraunir voru gerðar af einstökum mönnum í Vestmannaeyjum, áður en útibúið var stofnað, til að fá Landsbankann til þess að setja upp útibú í Eyjunum, og þá gengið út frá því, sem síðar varð raunin á, að sparisjóðurinn sameinaðist væntanlegu útibúi. Jeg var á þeim tíma þessu mjög fylgjandi og þó nokkrir aðrir, einkum af þeirri ástæðu, að við vildum heldur, að sparisjóðurinn lenti hjá Landsbankanum en Íslandsbanka.

En þetta fór nú svo, að Landsbankinn ákvað að setja upp útibú um líkt leyti á Selfossi, en Íslandsbanki setti aftur á móti upp útibú í Vestmannaeyjum, gegn því að fá sparisjóðinn. Vitaskuld var þörfin fyrir bankaútibú þá þegar orðin það mikil í Eyjum, að við urðum því fegnir, að annarhvor bankinn vildi koma þangað. Síðan hefir inn- og útflutningur í Vestmannaeyjum stórkostlega aukist, eins og hv. flm., 4. þm. Reykv. (HjV), hefir skýrt frá, og hefi jeg ekkert að athuga við þær tölur, sem hann nefndi; þær voru víst alveg rjettar, samkv. hagskýrslunum.

Þessi sparisjóður, sem gekk þarna inn í útibúið, var þá yfirtekinn ásamt varasjóði, sem var þá rúmar 17 þús. kr. Varasjóðurinn fylgdi með í bili, sem nokkurskonar trygging fyrir þeim töpum, sem skeð gæti, að bankinn hefði af útistandandi kröfum á sparisjóðinn, því að bankinn tók vitaskuld við honum með skuldbindingum hans og kröfum. En það reyndist svo, að eftir tvö ár skilaði bankinn rjettum aðilja þessum varasjóði aftur, því að ekki hafði orðið neitt tap á því, sem sparisjóðurinn átti útistandandi.

Síðan útibúið var stofnað hefir það starfað, eins og menn vita, áframhaldandi í Eyjunum, og viðskiftaveltan hefir stórkostlega aukist ár frá ári. Hún var 1920 rúmar 17½ milj., en hefir svo farið nokkurnveginn stighækkandi þangað til árið 1926, að hún nam nær 38 milj. kr.

Jeg get nú ekki sagt annað en það, að fram að þessum krepputíma, sem nú hefir staðið um nokkurt skeið, þá hefir útibúið annað því nokkurnveginn að leggja fram fje til rekstrar útgerðarinnar. En hinu verður ekki neitað, að kreppan hefir komið við Vestmannaeyjar og útibúið þar, líkt og við aðalbankann sjálfan, Íslandsbanka, og raunar allar lánsstofnanir í landinu. Þannig get jeg vel skilið það, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) sagði, að það væru ýmsir, sem óskuðu eftir því nú í Vestmannaeyjum að fá Landsbankaútibú stofnsett. Þessar óskir hafa þó hingað til ekki komið fram á þann hátt, að maður gæti sagt, að þær væru almennar. En nú hefir, eins og búið er að upplýsa, verið send áskorun um þetta efni til þingsins frá mönnum í Vestmannaeyjum.

Þrátt fyrir það, þótt jeg persónulega hafi frá byrjun haft tilhneigingu til að óska þess, að Landsbankinn væri þarna starfandi, þá hefi jeg þó ekki álitið mjer vera skylt að bera þetta mál fram á Alþingi, þar sem mjer hefir aldrei verið falið það, hvorki á þingmálafundum nje á annan veg. Það hefði meira að segja, vegna annarar aðstöðu minnar, kannske mátt misskilja það, ef jeg upp úr þurru hefði borið fram óskir um þetta efni.

Jeg held það sje ekkert ofmælt, þótt jeg segi það, að útibú Íslandsbanka í Vestmannaeyjum muni vera eitt af hans bestu útibúum. Það hefir líka leitast við að styðja atvinnuvegina í Eyjunum eftir því sem hægt er að ætlast til, eftir ástæðum undanfarin ár, bæði bátaútgerðina sjálfa og atvinnurekstur á landi, t. d. fiskimjölsverksmiðjur og fleira, sem stendur í beinu sambandi við útgerðina. Hver, sem kynnir sjer reikninga Íslandsbanka undanfarin ár, mun líka sjá, að Vestmannaeyingar hafa verið góðir viðskiftamenn. Þó er það svo nú, að á þessum peningaleysistímum væri það frá mínu sjónarmiði sjeð æskilegt, ef Landsbankinn sæi sjer fært að setja upp útibú þar. Þess eru líka dæmi, eins og hv. flm. lýsti, að bankarnir starfi á fleiri stöðum hjer á landi með útibú hvor við annars hlið. Eins og sakir standa, er raunar allur fjöldi manna í Vestmannaeyjum viðskiftamenn Íslandsbanka, en eftir því sem maður veit af reynslunni, jafnvel hjer við aðalbankann, þá er ekkert annað líklegra en að Íslandsbanki sæi ekkert eftir því, þótt einhverjir af hans viðskiftamönnum gætu fengið aðgang annarsstaðar. Jeg hefi heyrt, að Íslandsbanki sje ekki fráhverfur að gefa samþykki sitt til þess, að Landsbankinn yfirtæki útibúið í Vestmannaeyjum. Og jeg fyrir mitt leyti mundi síst hafa á móti því, ef það gæti tekist.

Jeg heyrði, að hv. þm. Snæf. (HSteins) áleit, að ekki væri rjett að samþ., að fleiri útibú yrðu sett á stofn, þar sem fyrir lægi áskorun um Stykkishólmsútibúið, sem þegar er 8 ára gömul, og ekki farið að fullnægja enn þá. Jeg þekki ekki svo vel til á þeim stað, að jeg viti, hvað þörfin er brýn, en áreiðanlega er mikið minni atvinnurekstur þar en í Vestmannaeyjum.

Hv. þm. Str. (TrÞ) taldi ekki rjett að beina meira fje í sjávarþorpin að þessu sinni. En í því sambandi verð jeg að benda á það, og leggja áherslu á, að færi svo, að Íslandsbanki eigi eitthvað erfiðara með það heldur en nú að fullnægja þörf á lánsfje til rekstrar, t. d. í Vestmannaeyjum, þá verður óhjákvæmilegt, að Landsbankinn hlaupi undir bagga eitthvað meira en hann gerir nú. Í því sambandi er rjett að geta þess, að þótt flestallir útgerðarmenn í Eyjunum sjeu viðskiftamenn Íslandsbanka, þá er þó talsvert fje lánað frá Landsbankanum til atvinnurekstrarins þar, og hefir bankinn þar þess vegna talsverðra hagsmuna að gæta.

Þótt jeg því hafi ekki fengið nein tilmæli um það frá Vestmannaeyingum að veita þessu máli atbeina, þá vil jeg við þetta tækifæri veita því liðsinni mitt, þar eð jeg hefi frá öndverðu verið því fylgjandi, að Landsbankinn setti þar upp útibú. Jeg tek því undir ósk hv. flm. um, að þáltill. á þskj. 327 sje samþ. nú á Alþingi, og vona, að með því sje betur trygður atvinnurekstur Vestmannaeyinga og að Landsbankinn sjái sjer fært að hrinda þessu máli í framkvæmd.