19.05.1927
Neðri deild: 82. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í D-deild Alþingistíðinda. (3542)

59. mál, kaup á húseigninni nr. 16 við Hafnarstræti

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get ekki neitað því, að mjer þykir hv. fjhn. hafa haft þetta mál nokkuð lengi til meðferðar, og jeg er ekki vel ánægður með afgreiðslu hennar á því.

Nefndin vill afgreiða málið með rökstuddri dagskrá um það, að stjórnin rannsaki til næsta þings, hvernig best sje að ráða til lykta atriðinu um húsnæðisskort landssímans. En jeg vil benda á það, að með því að samþ. þessa rökstuddu dagskrá er ekki nein von um, að hægt verði að fá þetta hús, sem hjer er um að ræða, því að jeg býst við, að það verði selt áður, og jeg hygg, að það verði ekki hægt að ráða bót á þessum húsnæðisskorti eins vel á nokkurn annan hátt. Og jeg er viss um, að ef Forberg landssímastjóri hefði lifað, þá mundi þetta mál hafa fengið heppilegri afgreiðslu. Jeg er sannfærður um, að ekkert hús verður ódýrara og heppilegra en þetta, og segi jeg það af því, að jeg veit með vissu, að Forberg heitinn leit svo á, að það væri hægt að komast af með það húsrúm, sem landssíminn hefir nú, ef hægt væri að taka til afnota smátt og smátt herbergi í þessu húsi fyrir símann, og að þá væri hægt að komast hjá því að byggja yfir hann fyrstu 10 árin. Landssímastjórinn sagði, að kostnaðurinn við að flytja landssímastöðina mundi verða um 50 þús. kr., og hefði hann ekki gefið þessar upplýsingar, hefði mjer ekki dottið í hug að festa kaup á þessu húsi, því að það er ómögulegt að neita því, að það er dýrt. En ef tekið er tillit til þess flutningskostnaðar, sem verður, ef á að flytja landssímastöðina á einhvern annan stað, þá er það ekki dýrt. En til þess að sýna, að það er ekki krafist hærra verðs fyrir þetta hús en tilboð eru um frá öðrum stöðum, skal jeg lesa hjer upp brjef frá hr. Jens Eyjólfssyni, byggingameistara, til eiganda hússins. Það er svohljóðandi:

„Reykjavík, 1/9 1926.

Herra E. Eiríksson, Reykjavík.

Leyfi mjer hjermeð að gera kauptilboð í húseign yðar, Hafnarstræti 16, að upphæð kr. 120.000 — eitt hundrað og tuttugu þúsund krónur — og fylgi með í kaupunum öll lóð tilheyrandi eigninni ásamt bakhúsum.

Tilboð þetta gildir til 1. okt. 1926.

Virðingarfylst.

Jens Eyjólfsson.“

En þegar landsstjórnin komst að því, að það væri á döfinni að selja þetta hús, þá leitaði hún samkomulags við eiganda þess, og fekk hann til að slá 5000 kr. af verðinu, með tilliti til þess, hve öruggur kaupandinn væri. En nú er svo um þennan mann, sem gert hefir tilboðið, að hann er stóreignamaður, og að baki hans standa margir efnamenn, sem hafa í hyggju að byggja stórhýsi þarna.

Að því er húsnæðisskort pósthússins snertir, vil jeg geta þess, að aðalpóstmeistari hefir ekki kvartað yfir honum við mig að öðru leyti en því, að það væri heldur lítið rúm í kjallara hússins fyrir bögglapóststofuna. Hann hefir gert ráð fyrir því við mig, að hægt mundi vera að fá leigt í næsta húsi, en jeg veit ekki fyrir víst, hvort það er hægt. Aftur á móti veit jeg, að bæði landssímastjóri og aðalpóstmeistari óska að fara úr sínum húsum og fá önnur húsnæði, en jeg veit, að það fyrirkomulag verður dýrara heldur en að kaupa hjer umrætt hús. Ef byggja á nýtt pósthús, þá er jeg viss um, að það verður mjög dýrt: jeg geri ekki ráð fyrir, að þá verði hægt að komast af með minna en ½ milj. kr., og ef við eigum að byggja nýtt hús fyrir landssímann og láta póststjórninni eftir gamla símahúsið, þá veit jeg, að það verður ekki kostnaðarminna, en auk þess er mjög hentugt að hafa pósthúsið og landssímahúsið nærri hvort öðru, og þess vegna getur ekki verið um það að ræða að taka lóð, sem er langt frá pósthúsinu.

Jeg geri ráð fyrir, að það verði aldrei hægt að fá ódýrari lóð í þessu skyni. En það er ekki aðeins það, sem jeg er að hugsa um, heldur líka byggingarkostnaðinn. Jeg veit, að bæði póstmeistara og landssímastjóra hefir dottið í hug að fá þá lóð, þar sem gamla pósthúsið stendur við Pósthússtræti, og ennfremur lóð fyrir vestan Eimskipafjelagshúsið, en jeg þykist viss um, að þær lóðir verði dýrari. En það er ekki aðalatriðið fyrir mjer, heldur það, hvað byggingarkostnaðurinn verður geysimikill. Það er nú svo um landssímann, að hann á mjög erfitt með að komast af lengi hjer eftir, án þess að fá húsnæðisviðbót.

Þessar upplýsingar vildi jeg gefa í tilefni af undirtektum hv. fjhn. En jeg segi það ekki af því, að jeg búist við, að þetta mál nái að fara í gegnum þingið, vegna þess að það er þingslitadagur í dag, og jeg býst varla við, að hjer verði að ræða um aðra afgreiðslu á málinu en þá, sem nefndin stingur upp á. En jeg vil benda á þetta, af því að jeg er viss um, að það er stórkostlegur kostnaðarauki, sem fylgir því að sleppa þessu tilboði, sem hjer er um að ræða, og jeg verð að segja það, að jeg get ekki haft nokkra von um, að húseigandinn vilji bíða eitt ár enn. Um það hefi jeg samt ekki talað við hann, en jeg geri ráð fyrir, með þeirri eftirsókn, sem verið hefir eftir þessu húsi, að það verði selt á þessu ári.

Jeg hefi heyrt það utan að mjer frá sumum hv. þm., að þetta hús mundi ekki geta staðið nema örfá ár, en þetta er ekki rjett; það er hvergi fúið, nema ef einhverjar undirslár eru fúnar; það hefir ekki verið rannsakað, en það ber þó alls ekki á því. Jeg þekki þetta hús vel og veit, að viðurinn í því er alveg ágætur. Húsið er múrað upp í binding og með allra traustustu húsum í bænum, en kjallaralaust og getur því staðið mjög lengi enn þá.