05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (3568)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Pjetur Ottesen:

Það hefir komið fram tillaga um að vísa þessu máli til sjútvn. Jeg býst við, að hv. flm. þeirrar till. (TrÞ) muni taka hana aftur, þegar það er upplýst, að skipuð hefir verið nokkurskonar milliþinganefnd til að athuga þetta síldarmatsmál alt í heild. Það var aðallega þetta, sem jeg vildi vekja athygli á. En úr því að jeg stóð upp, skal jeg gera grein fyrir, af hvaða ástæðum jeg er á móti þessari tillögu. Ástæður mínar eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi hefir síldveiði fyrir Austurlandi verið svo lítil undanfarin ár, að engin ástæða virðist til þess að hafa þar yfirmatsmann. Þegar á það er litið, að yfirmatsmaðurinn á Siglufirði hefir eftirlit alla leið vestur í Strandasýslu, þar sem oft er mikil síldveiði, þá virðist yfirmatsmaðurinn á Akureyri ekki hafa verri aðstöðu til að hafa þetta eftirlit á Austfjörðum. Það má náttúrlega segja, að lengri leið sje frá Akureyri til Austfjarða heldur en frá Siglufirði vestur í Strandasýslu. En eins og samgöngum er háttað um síldveiðitímann, skiftir munurinn á vegalengdinni ekki miklu máli. En hinsvegar er á það að líta, að undanfarin ár hefir verið um margfalt meiri útflutning að ræða úr Strandasýslu heldur en frá Austfjörðum. Austfirðingar hafa áreiðanlega ekki beðið tjón af því í sumar, eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) heldur fram, að vantað hafi þar yfirmatsmann, heldur af því, ef um tjón hefir verið að ræða, að ekki hefir verið nóg af vönum undirmatsmönnum, en það er ekki óeðlilegt í sjálfu sjer, þó svo væri á síðastliðnu sumri, þar sem nálega engin síld hefir veiðst um fjöldamörg ár á Austfjörðum, fyr en á síðastliðnu sumri.

Önnur ástæða mín gegn þessari till. er sú, að skipuð hefir verið af stjórninni sjerstök nefnd til þess að athuga síldarmatið. En ástæðan til þess er sú, að um það eru skiftar skoðanir meðal síldarútflytjenda, hve mikla þýðingu þetta mat hafi. Eitt verkefni nefndarinnar er að athuga, hvort nauðsynlegt verði að telja að hafa þetta mat áfram. Ef niðurstaðan verður sú, að leggja matið niður, þá er auðvitað fjarstæða að fara að skipa nú yfirmatsmann á Austurlandi.

Þriðju ástæðu mína tel jeg líka mikilsverða, en hún er sú, að á þinginu 1925 var samþ. þáltill. um að skora á stjórnina að veita ekki þau embætti, sem losna kynnu, ef tiltækilegt þætti að sameina þau öðrum, og skyldi þetta líka gilda um sýslanir eins og þessa. Í þessu er fólgið nokkurt aðhald fyrir stjórnina, sem þingið ætti ekki að spilla, því að það er mikilsvert atriði, ef hægt væri að draga úr embættakostnaðinum.

Jeg mun greiða þeirri till. atkvæði, að vísa málinu til stjórnarinnar, og tel jeg það fullkomlega rjettmæta afgreiðslu.