07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (3583)

192. mál, umboðsmaður sáttasemjara á Austurfjörðum

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg heyri, að hjer er rætt um samtal milli mín og hv. 5. landsk. (JBald) út af till. um skipun umboðsmanns sáttasemjara á Austfjörðum. Hv. 5. landsk. (JBald) kom til mín, þar sem jeg sat í mínum stól í Nd., og sýndi mjer uppkast að till. og spurði, hvað jeg segði um hana. Jeg kvaðst mundu athuga málið. Jeg benti á, að líklega mundi nokkur kostnaður af henni hljótast, en að öðru leyti tók jeg þá enga afstöðu til till. Nú skal jeg að vísu ekki leggjast fast á móti till. En jeg er hræddur um, að hún komi ekki að miklu haldi. Það verður ekki sjeð af lögunum, að sáttasemjari eigi að hafa umboðsmann á Austfjörðum eða annarsstaðar. Það, sem jeg býst við að hv. flm. gangi til meðal annars, er það, að erfiðara er um símasamband til Austfjarða en víðast hvar annarsstaðar á landinu.

Jeg hefi ekki haft tækifæri til þess að tala við sáttasemjara, síðan þetta samtal mitt og hv. 5. landsk. fór fram, og veit því ekki um álit hans. En jeg tek undir með hæstv. forsrh um það, að mjer finst langeðlilegast, að slík tilmæli sem þessi komi frá sáttasemjara sjálfum. Það er ekki svo gott að fara að setja honum umboðsmann án hans samþykkis. (JBald: Hefir hæstv. atvrh. lesið till.? Þar stendur, að atvinnumálaráðherra skuli hlutast til um við sáttasemjara, að hann hafi o. s. frv.). Víst hefi jeg lesið hana, en ekki kunni jeg hana utan að. En það er eftir orðalagi till. ekki alveg ljóst, hvort hv. tillögumaður er því samþ., að ekkert verði gert viðvíkjandi þessum umboðsmanni án samþykkis sáttasemjara sjálfs. Annars er rjettast að vísa málinu til stjórnarinnar. Hún mun sjá til, hvað rjettast er að gera í þessu efni.