23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í D-deild Alþingistíðinda. (3641)

54. mál, milliþinganefnd um hag bátaútvegsins

Ásgeir Ásgeirsson:

Sem flm. vil jeg þakka nefndinni fyrir það, hve vel hún hefir tekið undir þessa till. Þó mun jeg ekki greiða atkvæði með þeim brtt., sem hún flytur. Það veitir ekki af að hafa 5 menn í nefndinni, svo að allir landshlutar fái hver sinn fulltrúa. Og fimm menn hafa betri skilyrði til þess að rannsaka það, sem með þarf, heldur en þrír. En sjerstaklega vil jeg áfellast það í áliti nefndarinnar, að 3 menn geti komist af með 3 mánuði til að ljúka störfum. Starfstíma nefndarinnar á ekki að ákveða í nál. Verkefnin eiga að ráða því, hve lengi nefndin situr.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) hefir mælst til þess, að málinu verði vísað til Fiskifjelagsins, er geri tillögur hjer að lútandi í samráði við einhvern lögfræðing. En sjálft Fiskifjelagið óskar eftir því, að sú nefnd verði skipuð, sem við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) förum fram á. Fiskiþingið tók ákvörðun um þetta, og sú nefnd, sem þingið setti í málið, er ekki líkleg til þess að gera neitt verulegt. Hana vantar fje til daglauna, ferðakostnaðar o. fl. Þetta hefi jeg eftir mönnum úr stjórn Fiskifjelagsins, og ennfremur það, að þar eð nefnd sú, sem fjelagið kaus, hefði ekki tök á því að annast þessi störf, þá óskaði fje lagið eftir því, að milliþinganefnd verði sett á Alþingi til að greiða vandræði bátaútvegsins.

Verkefnið er ærið. Og þótt jeg sje ekki sjerfræðingur á þessu sviði, leyfi jeg mjer að hafa aðra skoðun en hinn ágæti útgerðarmaður, hv. 3. þm. Reykv. (JÓl). Jeg vil taka það fram, að verkefnið er þess eðlis, að útlit er fyrir, að þörf sje íhlutunar og aðstoðar ríkisvaldsins til þess að leysa það. Þetta á einkum við bátaútveginn, því að þar eiga hlut að máli margir en smáir útvegsmenn, sem ekki hafa getu til þess nje samtök að koma af stað þeim umbótum, sem kæmi þeim að mestu gagni. Það eru meiri líkur til þess, að stórútgerðin geti bjargað málum sínum. En þótt hún hafi tök á því, hvað snertir fjármagn, þá hafa stórútgerðarmennirnir ekki verið svo framtakssamir um útgerð sína nje samvinnuþýðir sín á milli sem ástæða hefði verið til.

Það eru engin smáhlunnindi að búa fast við bestu fiskimið heimsins og svo nálægt því landi, Englandi, sem hefir mesta þörf fyrir innflutning á matvælum. Ef ekki ætti að vera hægt að búa vel í slíku landi á þessari öld, þá veit jeg ekki, hvernig aðrar þjóðir, sem hafa verri aðstöðu, eiga að bjargast. Örðugleikarnir, sem vinna þarf bug á, eru fyrst og fremst vegalengdin milli framleiðslunnar og neyslunnar. Það þarf að gera með fleiru en saltinu einu. Aðrar þjóðir viðhafa fleiri aðferðir, sem við ættum að notfæra okkur. Við höfum ekki enn „moderniserað“ okkar útveg, þótt við höfum fengið togara. Það hafa aðrar þjóðir sýnt, að fleira má vinna á þessum sviðum en að eignast góð fiskiskip. Mjer er ekki fullkunnugt um hinn mikla verksmiðjurekstur Þjóðverja, sem lýtur að því að gera framleiðsluna verðmætari, án þess að þurfa að salta hana. En kunnugir menn eru þegar farnir að vekja máls á þeirri nauðsyn að feta í þeirra fótspor.

Fyrir þingnefnd hefir legið málaleitun, sem byggir á líkum grundvelli og tillagan, en er þó þannig varið, að engin líkindi eru til, að þingið taki undir hana. Og nú hefir forseti Fiskifjelagsins skrifað í eitt blaðanna um framtíðarfyrirkomulag fiskiveiðanna, þar sem hann vill, að smáútvegurinn sje dreginn saman á fáar hafnir, til þess að gera hann hæfari til iðnrekstrar.

Á vesturkjálkanum eru margir, sem telja vonlítið um útgerðina þar, meðan hinn svonefndi ruslfiskur og fiskúrgangur er ekki gerður markaðshæfur og verðmætur, en það er undir því komið, að iðnrekstur verði settur í samband við útveginn og skipulegur útflutningur ísfisks, sem aflað er á bátum, hefjist. En þetta er of stórfenglegt og nýstárlegt til þess að einstakir smáútgerðarmenn geti hrint því af stað einir síns liðs. En þá á ríkisvaldið að koma til hjálpar, til þess að rannsaka, að hve miklu leyti þess hjálpar og aðstoðar þarf til að koma smáútgerðinni í það horf, sem tímarnir krefjast.

Það má líta á þessa till. sem fyrstu tilraun af Alþingis hálfu til þess að fara út á þessa braut. En ef nefndarálitið eitt ætti að verða eini árangurinn af starfi nefndarinnar, þá væri lítið unnið. En mín trú er það, að starf nefndarinnar yrði til þess að hrinda af stað ýmsu, sem lengi hefir verið vanrækt að gera af þingsins hálfu, sjávarútveginum til eflingar. Engum má vaxa í augum kostnaðurinn. Þetta þing hefir samþykt það, sem meira kostaði, í þeim tilgangi að víkka markaðinn fyrir saltfisk og salta síld. Það hefir verið mikið um það talað, að auka þyrfti þennan markað, og þá má alveg eins verja nokkrum krónum til þess að rannsaka, hvernig breyta eigi vörunum, svo að markaðurinn geti stækkað af sjálfu sjer og verðmæti vörunnar aukist.

Jeg legg höfuðáhersluna á það, sem lýtur að því að rannsaka, með hvaða hætti megi gera afurðir okkar verðmætari og útvega markað fyrir tegundir, sem eru í lágu verði og þess vegna lítið veiddar, og meiri stund væri lögð á að afla, ef verðið hækkaði, og hitt, að sjá betur fyrir lánsþörf bátaútvegsins en nú er gert.

Það, sem nefndin á að rannsaka og gera till. um, er nú komið á það stig í blöðum og umræðum manna á milli, að ekki er úr vegi, að þingið tæki nú að sinna þessu máli. Viðfangsefnið leitar á. En þingið er ekki vant því að taka stór skref í málum sem þessum, án þess að þau hafi verið athuguð af milliþinganefndum. Við flm. viljum því byrja á milliþinganefnd, í von um, að Alþingi láti sig málið meir skifta eftir en áður.

Jeg vil svo að lokum þakka nefndinni fyrir, að hún hefir tekið sæmilega í þessa till., og byggi á undirtektum hennar þá von, að Alþingi sinni málinu.