28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

85. mál, friðun hreindýra

Halldór Stefánsson:

Jeg gerði svo ítarlega grein fyrir brtt. mínum og hv. samþm. míns (ÁJ) við upphaf þessarar umr., að jeg tel ekki þörf að fara út í það verulega frekar. Jeg get verið þakklátur háttv. minni hl. fyrir það, að hann hefir skilið málið betur en háttv. meiri hl., og að hann vill með litlum breytingum fallast á brtt. okkar. Önnur brtt. minni hl. fer í þá átt að lengja friðunartímann og miðar að því að friða dýrin um brundtímann. Jeg get vel fallist á þessa brtt. og tel hana rjett hugsaða. Annars hefir hún í sjálfu sjer ekki mikla þýðingu, vegna þess að hreinaveiðar myndu ekki verða stundaðar á þeim tíma, því að þá er vont bragð að kjötinu og það næstum óætt. En jeg hefi þó ekkert á móti því að hafa þetta ákvæði í lögunum. Það hefir verið gerður sá munur á milli nefndarhlutanna, að annar hlutinn vildi friða dýrin, en hinn ófriða. En það er, eins og tekið hefir verið fram áður, algert öfugmæli að segja, að við viljum með þessum till. okkar ófriða dýrin, þar sem við leggjum til að alfriða þau mestan hluta ársins, en leyfa að veiða þau hinn tímann því aðeins, að það sje af umsjónarmönnum talið óhætt vegna fjölgunar stofnsins og undir sjerstöku eftirliti. Það er höfuðmunur á því eða á þeim tíma, er hreindýrin voru sem óargadýr, sem mátti elta og drepa hvar sem var. Samt sem áður voru þau ekki upprætt, en vitanlega fækkaði þeim, og þá líklega engu síður vegna harðindanna á milli 1860 og 1870.

Um 20 ára skeið, frá 1882–1902, voru hreindýrin ófriðuð frá 20. ágúst til ársloka og drepin án alls eftirlits. Auk þess var höfð sú ómannúðlega veiðiaðferð, sem lýst hefir verið áður, að skjóta í hópa. En samkvæmt till. okkar verður þetta bannað, og að öðru leyti nánari reglur og eftirlit sett fyrir veiðinni.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fullyrti, að hreindýrin hefðu ekki fallið svo teljandi sje síðan 1867. Það er óljóst um það að vita og erfitt að fullyrða nokkuð um það. En það mun rjett, að þau hafa ekki stórfallið síðan. Jeg minnist þó þess, að eftir aldamótin, jeg held 1910, fjellu þau allmikið, því að beinagrindur fundust hjer og þar á þeim slóðum, sem þau hröktust þá um vegna jarðbanna og harðinda. Vel getur það verið, að fleiri ástæður sjeu til þess, að hreindýrunum fjölgar ekki meira, svo sem það, að beitarskilyrði sjeu ekki til fyrir stóra hópa, vegna þess að sá gróður yrjist upp, sem þau þrífast best á. En ef þetta er rjett, sem jeg tel ekki ósennilegt, þá veit jeg ekki til hvers á að vera að alfriða dýrin, þar sem þeim gæti þó ekki fjölgað hvort sem er. Það væri einni ástæðu minna til að banna að veiða þau.

Jeg hefi bent á annað atriði, sem gæti ef til vill valdið því, að dýrunum fjölgaði ekki, og það er, að tarfarnir sjeu of margir. Mjer hefir verið sagt það af fróðum mönnum, að í Noregi hefði einmitt þetta verið álitið hamla mest fjölgun dýranna, en er Norðmenn tóku að leyfa að drepa tarfana, þá fjölgaði þeim. Þeir þurfa auðvitað ekki minni beit en hin dýrin, og ef beitarskilyrðin eru takmörkuð, þá eyða þeir aðeins skilyrðunum fyrir þeim dýrunum, sem nauðsynlegri eru fyrir fjölgunina.

Jeg held því, að miklu rjettara sje að ganga að till. okkar en hinni. Hv. frsm. meiri hl. (JörB) taldi hættu á því, að varðdýrin yrðu skotin fyrst, ef leyft yrði að veiða dýrin. En varðdýrin eru tarfar, og þó að þau yrðu skotin, þá kæmu altaf önnur í þeirra stað. Annars veit jeg ekki, hvaða hætta vofir yfir þeim, þótt þessi varðdýr sjeu skotin.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Vil jeg að lokum aðeins lýsa yfir því, að jeg álít friðun stofnsins og viðhaldi betur borgið, ef gengið er að till. okkar. Þá mundi fást betri vitneskja um útbreiðslu hreindýranna og mönnum yrði annara um að halda þeim við, er þau væru þó til nokkurra nytja.