26.02.1927
Neðri deild: 16. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

43. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Flm. (Jakob Möller):

Frv. þetta er samhljóða frv., sem afgreitt var frá þessari háttv. deild í fyrra, en varð ekki afgreitt frá efri deild vegna tímaskorts. Var jeg ásamt öðrum flutningsmaður þess. Það fjekk mjög góðar undirtektir hjer, og virðist því óþarfi að gera mikla grein fyrir því nú, en jeg vil þó eigi að síður víkja nokkrum orðum að aðalatriðum þess.

Eins og kunnugt er, hefir verið stofnað til sjóðs til þess að reisa þjóðleikhús, og höfðu menn gert sjer vonir um, að hægt yrði að reisa það fyrir 1930. En tekjur sjóðsins af skemtanaskattinum hafa ekki orðið svo miklar, að slíkt sje hugsanlegt, því alls hafa þær til þessa numið um 150 þús. kr. Auk þess má búast við, að þær minki ennþá meir, þar sem búið er að banna allar hlutaveltur, en þær hafa gefið miklar tekjur, að minsta kosti hjer í Reykjavík.

Líklega þarf ekki að búast við miklum tekjuauka af frv. þessu, þó gert sje ráð fyrir, að skatturinn nái til allra kauptúna, sem hafa fleiri en 500 íbúa, og þarf þá ekki heldur að óttast, að hann verði tilfinnanlegur fyrir þau. Að sjálfsögðu getur það altaf verið álitamál, hvar setja eigi takmörkin. Hjer eru þau sett við 500 íbúa, og er það gert til þess, að skatturinn nái til sem flestra.

Aðaltekjuvonin af frumvarpinu er skattur af dansleikum. Hjer í Reykjavík verða áreiðanlega töluverðar tekjur af þeim.

Þá er breytingin, sem felst í 3. gr. frv. í fljótu bragði mætti jafnvel ætla, að hún yrði til þess að rýra tekjurnar af skattinum, þar sem hún fer fram á að flytja alla sjónleika undir lægra skattflokkinn, en nú ber að greiða hærri skattinn af sjónleikum, sem ekki njóta opinbers styrks. En reynslan virðist hafa sýnt, að þessi hærri skattur af sjónleikum verði aðeins til þess, að slíkar leiksýningar leggist niður, svo að tekjurnar af þeim verði engar. Virðist því þegar af þeirri ástæðu rjettara að lækka skattinn, auk þess, sem það er alls ekki tilgangur laganna að hindra það, að sjónleikum sje haldið uppi í kauptúnum landsins.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál nú, og þar sem það var samþykt hjer í fyrra, finst mjer ekki ástæða til, að það gangi til nefndar. Geri jeg því að tillögu minni, að því verði vísað til 2. umr. nefndarlaust.