29.03.1927
Efri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

14. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Þetta frv. gerir breytingar á 26. gr. laga um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna. Það skýrir ákvæðin um það, hvenær barnsmóður sje heimilt að krefjast barnsfúlgu af meðlagssveit, ef barnsfaðir hefir ekki greitt á rjettum gjalddaga. Frv. gerir þá breytingu, að í stað sýslunefnda og bæjarstjórna ákveði atvinnumálaráðuneytið, eftir tillögum þessara stjórnarvalda, meðalmeðgjöf í hverju sveitarfjelagi. Jeg hjelt í fyrstu, að þessa væri ekki mikil þörf. En eftir að nefndin kynti sjer auglýsingu í Stjórnartíðindunum 14. maí 1925, þá sannfærðist hún um, að þetta hefir gengið misjafnlega á þennan hátt. Sumar sýslunefndir hafa ákveðið meðlagið fyrir 4 ár í senn, sumar 5 ár jafnt. Ein hefir jafnvel komist upp í 12 ár — jeg held í Vestur-Ísafjarðarsýslu, eða jafnt með barni, hvort það er á 1. ári eða 12. — Það nær auðvitað engri átt.

Til þess að koma í veg fyrir þetta, að miða við svo mismunandi aldur, ber allshn. fram brtt. við 1. gr., að bætt sje inn á eftir orðunum „aldur barna“ í niðurlagi 3. málsgr.: „hinn sama á öllu landinu“.

Eins og getið er um í nál., álítur nefndin frv. vera til nokkurra bóta og leggur til, að það verði samþykt með þessari breytingu.