07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Eins og öllum hv. þdm. mun kunnugt, hefir fjhn. þessarar deildar, síðan þetta mál var hjer til 1. umr., verið gefin skýrsla sú, er lofuð var af hálfu stjórnarinnar við 1. umr. þessa máls. Geri jeg ráð fyrir, að þau atriði muni nú kunn orðin hv. þdm. Jeg hefi borið fram brtt. á þskj. 114. Hefi jeg gert það fyrir þá sök, að jeg hefi orðið var við, að sumir hv. þm. hafa heldur óskað þess, að heimildin væri nokkuð afmarkaðri en ráð er gert fyrir í frv. Jeg skal geta þess, að mjer er öldungis sama, hvort frv. er samþykt óbreytt eða með þessari brtt. Jeg hefi aðeins borið hana fram til þess að ná fyllra samkomulagi. Mjer þykir rjett að geta þess, að mjer barst á laugardaginn síðdegis svo hljóðandi skeyti frá sendiherra vorum í Kaupmannahöfn:

„Vegna ferðalags forstjóra national city æskilegt lögin hingaðkomin mánudag“.

Jeg veit nú ekki, hversu auðvelt það er að verða við þessum tilmælum, en mjer finst sjálfsagt, að hv. þingdeild fái að vita um þau.