07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. (Klemens Jónsson):

Í þessum umr. hefir ekkert komið fram, sem snertir fjhn. í sjálfu sjer. En viðvíkjandi því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) tók fram í sinni löngu ræðu, verð jeg að segja það og taka undir með hæstv. fjrh. (JÞ), að hann hefir lagt alt annað í þetta mál en meiningin er. Það skein í gegnum hans löngu ræðu, að hann mundi vera hræddur við, að þetta lán yrði aðallega tekið í því skyni að halda gjaldeyri landsins í því verði, sem hann er nú. En jeg fyrir mitt leyti álít, að þessi hræðsla hans eigi við engin rök að styðjast. Jeg er, eins og hv. þdm. vita, hægfara hækkunarmaður. En þó dettur mjer ekki í hug að ljá liðsinni mitt til þess að taka lán til þess að hækka gildi krónunnar. Jeg hygg það sje ljóst öllum hv. þdm., sem athuga þetta vel, að þessi ætlun hv. þm. Str. getur ekki verið rjett, að lánið eigi að taka í þessu skyni; því að lán, sem aðeins er tekið til eins árs, það er sannarlega ekki til þess hentugt. Nei, hjer getur ekki verið að tala um neitt slíkt. Eins og jeg tók fram við 1. umr., þá er þetta ekkert annað en lögfesting á gamalli venju, — lögskýring á því, sem þrjár stjórnir að minsta kosti hafa talið sig hafa fulla heimild til.

Auk þess er annað atriði, og það er aðallega vegna þess, að jeg stend upp fyrir hönd nefndarinnar. Hún lítur svo á, að með þessu frv. sje aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, en sem þingið hlýtur að taka endanlega ákvörðun um, þegar frv. um seðlabanka, sem liggur fyrir hv. Ed., kemur til atkvæða. í 15. gr. þess frv. er eitt ákvæði, sem tekur skýrt fram, að stjórninni sje heimilt, eftir tillögu bankaráðs, að ábyrgjast erlend lán fyrir bankann. Ef seðlabankafrv. verður samþ. óbreytt að þessu leyti, þá er þetta frv. orðið óþarft, og það ber aðeins að skoða sem bráðabirgðaráðstöfun. Á þetta leggur fjhn. aðaláhersluna. Meira að segja hefir nefndin beðið mig að skýra frá því, að þetta hafi verið aðalhugsunin, þegar hún tók málið að sjer. Jeg held þess vegna, að það sje alls ekki rjett hjá háttv. þm. Str., að þetta sje þýðingarmesta málið, sem hefir komið fram á þessu þingi. Vafalaust eigum við eftir mál miklu þýðingarmeiri. En auðvitað geta allir verið samdóma um, að það er altaf þýðingarmikið, þegar ræða er um að taka lán til landsþarfa og takast á hendur ábyrgð fyrir láni, sem er talsvert stórt. En svo framarlega sem hægt er að sanna, að slík lántaka er alveg nauðsynleg, — ekki síst til þess einmitt að viðhalda framleiðslunni, — þá er ekki um annað að gera en að taka þann kost, svo framarlega sem menn eru ekki gagnsýrðir af þeirri hugsun, að alt sje að fara á hausinn, við sjeum að sökkva alveg til botns í feninu. Jeg fyrir mitt leyti trúi ekki, að svo sje komið. Þvert á móti álít jeg, að þótt horfurnar sjeu slæmar, þá muni birta fljótlega aftur. Það hefir oft komið fyrir á seinni árum, að kreppa hefir orðið í svip; en það hefir fljótt sýnt sig aftur, að landið hefir getað losað sig úr þeim örðugleikum.

Jeg tek undir með háttv. þm. Str. um það, — og veit, að allir eru því sammála, — að það er mjög sorglegt, hvað það lánsfje, sem áður hefir verið tekið til atvinnuveganna, hefir skifst ójafnt niður milli landbúnaðar og sjávarútvegs, að annar aðili fær 95%, en hinn aðeins 5%. En mundi það ekki geta stafað af því, að bændur bera sig ekki eftir björginni eins og sjávarútvegurinn gerir? Jeg er í engum vafa um, að bankastjórn Landsbankans mundi síst af öllu gera upp á milli sjávarútvegs og landbúnaðar, ef nægilegar tryggingar væru fyrir hendi. Þvert á móti er það sagt um að minsta kosti einn af bankastjórunum, að hann sje talsvert hlyntari landbúnaði en sjávarútvegi.

Það var aðallega þetta atriði, sem jeg vildi benda á fyrir hönd fjhn., að hjer er einungis um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, en þingið á ekki með þessu frv. að taka endanlega ákvörðun um, hvort það vilji veita hverri stjórn sem er heimild til þess að ábyrgjast erlend lán fyrir bankann.