09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

24. mál, hegningarlög

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

Eins og hv. þm. hafa sjeð, liggja hjer fyrir brtt. á tveimur þskj., 398 og 424. Fyrri brtt. eru frá nefndinni og mega skoðast sem leiðrjetting eða orðabreytingar, sem jeg tel sjálfsagt, að verði samþ.

Brtt. á þskj. 424 eru frá háttv. þm. Dal. Jeg tók það fram í fyrstu ræðu minni við 2. umr. þessa máls, að margt væri það í hegningarlöggjöf vorri, sem þörf væri að breyta, þó að tími ynnist kannske ekki til þess í þetta sinn. En úr því hv. þm. Dal. hefir orðið til þess að auka við frv. það, sem hjer liggur fyrir, þá hefir nefndin ekki sjeð ástæðu til að bera fram fleiri brtt., enda getur hún fyrir sitt leyti fallist á brtt. á þskj. 424. Það er ekki nema sjálfsagt að nema dauðahegningu úr lögum, enda svo langt um liðið, sem betur fer, síðan henni hefir verið beitt.

Hinar breytingarnar eru ekki nema, bein afleiðing af því, að við erum sjálfstætt ríki, og því sjálfsagt að fella úr lögunum alt, sem minnir á Dani eða það, sem er „danskt“. Þeir háttv. nefndarmenn, sem mættu á fundi í morgun, fjellust á allar brtt., og vænti jeg því, að hv. deild samþ. þær.