02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg skal lofa hv. þm. því að vera ekki lengi. Eiginlega gæti jeg látið nægja það, sem nál. segir um þennan kafla, en það mun þykja viðeigandi að fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum.

Hækkunartill., sem nefndin hefir komið með, nema alls 10675 krónum, svo að hækkunin á öllum liðum mun verða 168775 kr. Aðalhækkunin stafar af auknum styrk samkv. jarðræktarlögunum.

Þá er 1. till. Það er 21. till., um ýms gjöld til kirkjumála. Eins og getið er um í nál., var nefndinni ekki fyllilega ljóst, hvernig átti að verja þessu fje, þó að hún hefði óljóst hugboð um, að því ætti að verja til póstprestsins svokallaða. En vegna þess að nefndin hafði ekki löngun til að taka upp þennan lið, síst svo óákveðinn, þá ákvað hún að fella hann niður; mætti þá koma honum ákveðnari inn í fjárlögin síðar, ef hv. þm. hafa áhuga fyrir því. Og nú sje jeg brtt. frá hæstv. forsrh. um þetta, og verður þá hægt að tala nánar um þetta bráðlega.

Brtt. nr. 22, 23 og 24 vil jeg taka allar sameiginlega, og nefni þá fyrst 24. brtt., sem er aths. viðvíkjandi styrk til verklegs náms í bændaskólum, að í stað „6 vikur á ári“ komi: 8 vikur, og fyrir „12 kr.“ komi: 18 kr. Þessi brtt. er í samræmi við skoðun margra manna um verklegt nám í bændaskólum. Hjer er líka farið eftir till. skólastjóra á Hvanneyri, sem hann sendi nefndinni í brjefi, þar sem hann fer fram á þetta sama, en gerir þó ráð fyrir 9 vikum. En nefndin sá ekki fært að fara lengra en þetta. Ennfremur leggur nefndin til að veita 3 króna styrk á dag fyrir nemanda, og er það í fullu samræmi við verkkenslu þá, sem Búnaðarfjel. Ísl. heldur úti hjá einstökum mönnum. Í aths. við þessa breytingu hefir nefndin fallist á það, að jarðyrkjukenslustyrkurinn til beggja skólanna hækki að nokkrum mun. Þar af leiðandi verður nokkur breyting á þessu. Auðvitað kemur það dálítið einkennilega fyrir, að þessi liður til Hvanneyrarskólans er af nefndinni lækkaður um 450 kr.; en þannig stendur á því, að 800 kr., sem skólastjóri á Hvanneyri lagði til að veita til kennara við þetta verklega nám, eru feldar burtu. Nú hagar þannig til, að skólastjóri hefir þá námsmenn með góðum kjörum, og fær þar að auki alla þeirra vinnu sjálfur, þannig að honum er reiknað það upp í afgjald jarðarinnar. Sýndist því nefndinni ekki nema sanngjarnt, að hann kostaði verkstjórana. Er það og í fullu samræmi við verkkenslu Búnaðarfjelagsins. Styrkurinn til piltanna hækkar því um 350 kr., úr 1650 kr. upp í 2000 kr. Að sama skapi hækkar styrkur til verkkenslu í Hólaskóla úr 1000 kr. upp í 1450 kr.

25. till. er um laun fræðslumálastjóra, að þau lækki úr 5800 kr. í 5560 kr., sem er aðeins leiðrjetting.

Þá kemur 26. till., um prófdómara, Þennan lið leggur nefndin til að hækka úr 4000 kr. upp í 10000 kr., og er það eftir þeim upplýsingum, sem fengist hafa um þennan lið, því að sennilega hefir hann farið langt fram úr þeirri upphæð, sem lagt var til í frv. Ástæðurnar til þess, að þau útgjöld voru hækkuð svo mjög á síðasta ári, eru aðallega þær, að við síðustu breytingar á fræðslulögunum hefir þeim börnum fjölgað mjög mikið, sem taka þátt í prófum, fleiri prófdómendur hafa verið skipaðir og laun prófdómenda og prófara hafa hækkað að miklum mun.

Næst er 27. till., að liðurinn um kenslubækur fyrir barnaskóla falli niður. Nefndin viðurkennir þó þörfina fyllilega; en vegna þess, hve útgjöldin hafa aukist mikið til þessara mála í fjárlagafrv., leggur nefndin þetta til, sökum þess að þetta má frekast bíða.

Þá er 28. till., um að reisa nýja hjeraðsskóla, þar sem nefndin leggur til, að ríkissjóðstillagið hækki í helming kostnaðar. Lítur nefndin svo á, að þetta sje eitthvert mesta nauðsynjamál fyrir sveitirnar. Eins og við vitum, eru flestir skólar í kaupstöðum, og stendur til að auka þá að miklum mun samkv. þeim frv., sem liggja fyrir þinginu. En til þess að koma með eitthvað til jafnvægis móti kaupstaðaskólunum, þá hefir nefndin lagt til að styrkja sveitaskólana meira en verið hefir. Vonast jeg til, að hv. þm. fallist á þessa brtt.

29. brtt. er í fullu samræmi við þá síðastnefndu; hún fer fram á að hækka byggingarstyrk til húsmæðraskóla á Laugum.

Þá kemur 30. brtt., sem er styrkur til Sigurbjargar Sveinsdóttur til verklegs náms á heimili fyrir blindar stúlkur. Þessi stúlka er 27 ára gömul og hefir verið blind svo að segja alla sína æfi, en er mesta efnisstúlka að öllu öðru leyti, hefir með mjög lítilli tilsögn lært að lesa bæði íslensku og dönsku á bækur fyrir blinda menn. Eru því fullar líkur fyrir því, að hún geti stundað þetta nám í Danmörku sjer til mikils gagns. Þetta fje, sem lagt er til að veita nú, var upphaflega veitt í fjárlögum 1921; en þá veiktist stúlkan og gat því ekki notað það. Þetta er því ekki annað en endurveiting.

Þá er 31. till., þar sem nefndin leggur til, að sundlaugastyrkur hækki úr 4000 kr. í 10000 kr. Þetta er gert til samræmis við það tillag, sem farið er fram á úr ríkissjóði til sundhallar í Reykjavík.

32. brtt., um náttúrufræðifjelagið, er eiginlega aðeins leiðrjetting, þar sem hafði misritast fyrirsögn.

33. brtt. er nýr liður: Til Færeyjafjelagsins Gríms Kambans, 300 kr. Þetta fjelag er stofnað til þess að efla menningarsamband milli Færeyja og Íslands, og þó að upphæðin sje ekki há, álít jeg, að hún geti gert sitt gagn. Færeyingar eru eina þjóðin sem þykist hafa ástæðu til að líta upp til okkar Íslendinga, og jeg held við ættum að meta það út af fyrir sig og líta þá njóta þess. Auk þess eru þeir eina þjóðin, sem stendur okkur svo nærri, að líkur eru til, að geti komist í svo náið samband við okkur, að hún geti lært að verulegu leyti það mál, sem við tölum. Getur bókmentum okkar orðið það styrkur að fá í viðbót við okkar fáu lesendur þær 20 þúsundir, sem Færeyingar munu nú vera.

35. brtt. er leiðrjetting og 36. sömuleiðis.

Þá kemur 37. brtt., nýr liður um alþýðufræðslu Stúdentafjel. Nefndin lítur svo á, að starf það, sem Stúdentafjelagið hefir haft með höndum undanfarin ár, sje svo mikilsvert, að ekki sje rjett að fella þennan lið að fullu niður. Það hefir yfir svo góðum kröftum að ráða, að ekki er nema sjálfsagt að nota þá að einhverju leyti í þjónustu uppfræðslunnar í landinu. En væri styrkurinn hinsvegar alveg feldur niður, mætti líta svo á, að þjóðin óskaði ekki eftir afskiftum Stúdentafjelagsins af þessum málum, og það tel jeg illa farið.

Þá er 38. till., um styrk til hinnar íslensk-dönsku orðabókar, 4000 kr., að því tilskildu, að ríkissjóður Dana leggi fram 8000 kr. Það kom beiðni um margfalt hærri styrk, sem nefndin gat ekki tekið til greina. En hún lítur svo á, að hjer standi dálítið öðruvísi á með þennan hluta styrksins. Því mun hafa verið lofað, að ríkissjóður Dana legði fram 25 þús. kr. móti 15 þús. frá landssjóði til orðabókarinnar. Var upphaflega gert ráð fyrir því, að kostnaður við orðabókina yrði greiddur að fullu, eftir því sem þá var álitið að þetta mundi kosta. En nú vantar einmitt þessar 12 þús. króna til þess að greiðslu verði lokið að fullu eftir þá gerðum samningum. Nú hefir ríkissjóður Dana lofað 8 þús. kr. með því skilyrði, að landssjóður legði fram 4 þús. Þar sem þetta er uppfylling á áður gefnu loforði, finst nefndinni sjálfsagt að gera þessa till. Þar að auki stendur svo á, að þessar 12 þús. kr. voru teknar að láni hjá orðabókarsjóði, og verður tæpast komist hjá að greiða honum þá skuld. Þessi upphæð á að liggja á vöxtum hjer í landi og kaupa fyrir verðbrjef, svo að sanngirni mælir með því að draga þessar 8 þús. inn í landið.

40. brtt. er um jarðræktarlögin, að upphæðin hækki úr 140 þús. í 260 þús. kr. Þetta er bygt á þeirri útkomu, sem breytingin á jarðræktarlögunum 1926 hafði í för með sjer. Styrkupphæðin hefir sífelt farið hækkandi, og mun hjer síst reynast of hátt áætlað, þegar til kemur.

41. brtt. er um dýralækna, að fyrir 10000 komi 17000, sem ekki er annað en leiðrjetting samkv. launalögunum. Með 42. brtt. vill nefndin orða liðinn svo: Til þess að rannsaka búfjársjúkdóma, enda sjeu skýrslur birtar um árangurinn, 4000 kr. Nefndin vill aðeins tryggja landsmönnum það, að um leið og búið er að rannsaka einhverja búfjársjúkdóma, verði rannsóknirnar birtar á prenti, svo að hlutaðeigendur geti haft not af þeim.

Þá er 43. brtt., um bryggjugerð og lendingarbætur, að fyrir 15 þús. komi 12 þús. Með því að ekki lágu fyrir umsóknir um styrk nema frá Skálum á Langanesi, 10 þús. kr., og frá Flatey á Skjálfanda, 1800 kr., þá virðist þetta fyllilega nægja.

44. brtt. eru tveir nýir liðir, hinn fyrri um styrk til brimbrjóts í Bolungarvík, gegn a. m. k. jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá (lokastyrkur), alt að 11500 kr.

Meiri hl. nefndarinnar samþ. þessa till., enda þótt þingmenn virðist nú vera orðnir þreyttir á sífeldum styrkveitingum til þessa fyrirtækis. 1925 var gefið eftir lán til þessa fyrirtækis, sem þá átti að vera lokaveiting; svo kom viðbótarveiting 1926; 1927 hefir komið einhverskonar lokaviðbótarveiting, og nú kemur viðbótarlokaveiting 1928. Þeir, sem í fjvn. voru í fyrra, segjast hafa gefið einhvern ádrátt um, að þennan styrk skyldi veita á þessu þingi, og töldu sig þannig loforði bundna samkv. þeim orðum, sem þá höfðu fallið. Um þetta get jeg vitanlega ekkert borið, en þetta mun hafa verið samþ. á þessum grundvelli.

Þá er b-liður 44. brtt.: til lendingarbóta í Gerðum í Garði, helmingur kostnaðar, fyrri fjárveiting, alt að 7 þús. kr. Gerðahreppur fór fram á hærra tillag, en vegna þess að venja hefir verið að veita ekki nema 1/3 kostnaðar til lendingarbóta, gat nefndin alls ekki lagt til hærra en þetta. Aftur á móti vissi hún, að með því hlutfalli gæti ekki orðið af þessu verki, vegná þess að efnahagur hreppsins leyfir það ekki. Jeg þarf ekki að lýsa ástandinu þarna; hv. þm. er það kunnugt frá fyrri árum og eins af nál. Hagur manna er svo bágborinn, að ekki er nokkurt viðlit fyrir þá að kosta þetta verk að stærra hlutfalli en þessu. Hinsvegar mundi þessi lendingarbót bæta mjög aðstöðu þessarar sveitar til að sækja sjóinn, sem er mjög fiskisæll þarna, þegar til næst; en lendingarleysi hefir mjög hamlað þeim frá sjósókn.

Þá er 45. brtt., sem er ferðakostnaður og skrifstofufje leiðbeinanda við húsagerð, að fyrir 1000 kr. komi 2000. Maður sá, sem nú hefir með höndum starf þetta, sótti til Alþingis bæði um aukinn styrk til skrifstofuhalds og til leiðbeininga, og þar að auki um hækkun launa. Maður þessi hefir mjög lág laun í sjálfu sjer, en mikla ómegð; og jeg fyrir mitt leyti verð að álíta, að launin sjeu óforsvaranlega lág, þó að nefndin hafi ekki getað orðið við að hækka þau. Það er algerlega ómögulegt fyrir hann að vinna sjer nokkuð inn með aukastörfum, eins og margir aðrir starfsmenn geta, með því að alt, sem hann vinnur sjer þannig inn, gengur til þess opinbera. Aftur á móti sá nefndin, að ef skrifstofukostnaður yrði ekki hækkaður, kæmi starf hans ekki að fullu liði. Því eftir því sem byggingar aukast í landinu, og þá sjerstaklega ef frv. um byggingar- og landnámssjóð kemst í gegnum þingið, þá er jeg sannfærður um, að ekki verður hægt að komast af með einn mann til þessara starfa, heldur verður að bæta öðrum við. Það liggur því í hlutarins eðli, að nota þarf starfskrafta þessa manns eftir því, sem föng eru á.

Þá er 46. brtt., nýr liður: Til vatnsrenslismælinga 2000 kr. Upphæð þessi hefir staðið í fjárlögum áður, og nú lagði vegamálastjóri mjög eindregið með því, að hún yrði tekin upp aftur. Telur hann mælingar þessar munu koma að miklu gagni fyrir væntanlegar vatnavirkjanir.

Þá er 47. brtt., um að hækka styrkinn til stórstúkunnar um 2000 kr. og nema burtu ákvæðið um, hvernig hún skuli verja hluta af honum. Þó að sumum þyki það ekki glæsilegt fyrir fjárhag ríkissjóðs, að mikið sje unnið að bindindisstarfsemi, þar sem tekjur hans af vínsölunni minka við það, þá sjer nefndin sjer þó ekki annað fært en verða að einhverju leyti við óskum stórstúkunnar, þar sem hún er alls góðs makleg fyrir starfsemi sína, og leggur því til, að styrkurinn til hennar verði hækkaður um þessar 2000 kr.

Þá kemur 48. brtt., nýr liður: Til Þorleifs Jónssonar póstmeistara 1200 kr. Hann hefir í hyggju að láta af starfi sínu um næstu áramót. Þar sem hann er þegar orðinn gamall maður og hefir lengst af gegnt ábyrgðarmiklu starfi með litlum launum, og lífeyrir sá, sem hann fær úr lífeyrissjóði, hrekkur honum engan veginn til framfæris, sá nefndin sjer ekki annað fært en verða við beiðni hans að nokkru leyti.

49. og 52. liður eru aðeins tilfærsla. Þá hefir nefndin tekið upp nýjan lið, til Friðriks Jónssonar pósts 300 kr. Hann er þegar orðinn gamall maður og ætlar að láta af starfi sínu. Er því ekki nema sanngjarnt, að hann fái þennan litla lífeyri.

50. liðurinn kemur af sjálfu sjer, þar sem styrkþeginn, Hans Hannesson póstur, er dáinn.

Þá er síðasta brtt. nefndarinnar. nýr liður: Alt að 30 þús. kr. lán til Mjólkurfjelagsins Mjallar í Borgarnesi. Lánið veitist til 20 ára, með 5% vöxtum, og sje trygt með ábyrgð hlutaðeigandi sýslufjelaga. Fjelag þetta hefir þá einu mjólkurniðursuðuverksmiðju, sem til er á landinu. Fyrirtækið hefir átt við mikla fjárhagsörðugleika að etja. Það var stofnað á erfiðasta tíma, og hefir svo auk byrjunarörðugleikanna orðið fyrir því tjóni, að verksmiðjan brann til kaldra kola, einmitt þegar fjelagið virtist vera að komast úr mestu kreppunni. Fengu fjelagsmenn þá um 40–50 þús. kr. minna í brunabætur fyrir hana en hún hafði kostað þá. Varð þeim því tjónið af brunanum alltilfinnanlegt.

Sje nú hægt að spara mikið af því fje, sem gengur út úr landinu fyrir þessa vörutegund, með því að styðja verksmiðju þessa, þá er mikið unnið, auk þess, sem hún hjálpar bændum til þess að fá markað fyrir mjólkurframleiðslu sína.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þessar brtt. og læt bíða að tala um brtt. einstakra þm., þar til þeir hafa sjálfir mælt með þeim.