03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Jeg og hv. 2. þm. Skagf. (JS) höfum komið með 4 brtt. við þennan kafla fjárlaganna. Þrjár af þeim eru um að fella niður liði, sem nema 17000 kr., en sú fjórða um að setja ákvæði um ráðstöfun á sjerstakri fjárveitingu. Vil jeg gera grein fyrir þessu með nokkrum orðum. Er það þá fyrst till. um að fella niður styrkinn til húsmæðrafræðslu við alþýðuskóla Þingeyinga. Á síðasta þingi kom fram till. um að veita 11000 kr. byggingarstyrk fyrir húsmæðraskóla á Laugum í sambandi við unglingaskólann þar. Till. var feld, en kemur nú aftur í sömu mynd, nema hvað fjvn. hefir lagt til, að styrkurinn til unglingaskóla miðist við ½ byggingarkostnaðar í stað 2/5 áður, og er því hlutfalli og fylgt hjer, en það hefir þau áhrif, að styrkurinn hækkar úr 11000 kr. upp í 13000 kr. Um húsmæðrafræðsluna er ekki nema alt gott að segja, ef hún er rekin „praktiskt“ og lögð áhersla á að kenna efnasamsetningu fæðutegundanna og hagnýtingu þeirra. Jeg er og henni meðmæltur og skal ekki neita, að mikið verk er að vinna á þessu sviði. En það er með þessa skóla sem aðra, að mikið kostar að koma þeim upp og reka þá, og því ríður á, að alt sje vel íhugað áður en ráðist er í framkvæmdir.

Kostnaðurinn til skólahalds í landinu vex með ári hverju og er orðinn hár útgjaldaliður. Til skólabygginga er varið miklu fje, en meira ró til rekstrar skólunum, eftir að þeir eru komnir upp. Því fanst mjer og háttv. 2. þm. Skagf., að nauðsynlegt væri áður en veitt er fje til byggingar húsmæðraskólans á Laugum, að athugað yrði, hvað gerlegt væri að reisa marga slíka skóla, og það því fremur, sem fram hafa komið till. um að hækka styrkinn frá ríkinu, en því fleiri skólar, sem reistir eru, því meiri verður auðvitað rekstrarkostnaðurinn, ef á að halda þeim í sæmilegu horfi, og varla getur þingið verið þekt fyrir að kippa að sjer hendinni þá, því að það er sama og að leggja skólana niður.

Það bar á góma í fjvn., að ekki væru nein lög til um fyrirkomulag alþýðuskólanna. Þess er þó að gæta, að till. allar miðast við þá skipun, sem er á þessum skólum nú, og sömuleiðis allar framkvæmdir á byggingum nýrra alþýðuskóla, svo að það virðist komið fast skipulag á það, hvernig alþýðuskólunum skuli haga, þó að ekki sje til nein löggjöf um þetta efni. Um húsmæðraskólana gegnir alt öðru máli, þar er alt á meira reiki. Svo vil jeg benda á það, að auk þeirra skóla, sem nú hafa húsmæðrakenslu á hendi, var samþ. á þingi 1917 frv. til laga um húsmæðraskóla á Norðurlandi, sem fyrirhugað var að reisa í Eyjafirði. Jeg býst við, að hæstv. núverandi fjmrh. hafi átt þátt í flutningi þess frv. — Á því þingi var gert ráð fyrir, að byggingarstyrkur yrði veittur til skólans strax og dýrtíðinni ljetti. Það hefir ekki verið gert enn, og hafa þó komið fjárbænir úr Eyjafirði á undanfarandi þingum í þessu augnamiði. Önnur framkvæmd í þessu efni er sú, að koma á stofn húsmæðrafræðslu í sambandi við skólann á Laugum. Í þriðja lagi er till, um húsmæðraskóla á Hallormsstað. Hjer er því um að ræða 3 skóla með ekki miklu millibili. Okkur virðist því vakna sú spurning, hvort gerlegt sje kostnaðar vegna að reisa svo marga slíka skóla og hvar sje heppilegt að reisa þá til þess að vænta megi góðs árangurs. Og jafnframt ber á það að líta, hvað ríkissjóður treystist til að leggja fram á móti viðkomandi hjeruðum og hve mikils fjár er hægt að afla þeim til rekstrar, eftir að þeir eru teknir til starfa. Því að það leiðir af sjálfu sjer, að skólana verður að styrkja með allverulegum fjárframlögum. Öðruvísi geta þeir ekki náð tilgangi sínum. Þetta er nauðsynlegur grundvöllur, sem við þurfum að leggja fyrst, áður en ráðist er í einstakar framkvæmdir. Það verður að koma á þessi húsmæðrafræðslumál föstu skipulagi. Með því að ekkert liggur fyrir í því efni, leggjum við hv. 2. þm. Skagf. til að fella þessa styrkveitingu niður nú að þessu sinni.

Önnur brtt., sem jeg þarf að minnast á, er við 15. gr., XX. brtt. á þskj. 353, styrkur til hljómsveitar Reykjavíkur. Þessi hljómsveit nýtur nú samkvæmt gildandi fjárlögum 1800 kr. styrks, en er tekin upp í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar með 2200 kr. hækkun, eða 4000 kr. styrk. Við flm. brtt. getum ekki sjeð ástæðu til að hækka þennan styrk svo mjög. Till. okkar er á þá leið, að hann verði lækkaður aftur niður í 2000 kr., og er hann þó 200 kr. hærri en í núgildandi fjárlögum.

Þriðja brtt. okkar er einnig við 15. gr. og fer fram á það að fella niður styrk til Björns Jakobssonar, 4 þús. kr. til íþróttakenslu.

Árið 1926 var á þingi borin fram till. um að veita þessum sama manni 6 þús. kr. styrk til þess að halda íþróttaskóla í Þingeyjarsýslu. Nú er að vísu farið fram á lægri fjárupphæð, en hinsvegar er styrkurinn áætlaður til íþróttakenslu, en ótiltekið hvar. Og ekkert er tekið fram um það, hvernig henni skuli haga. Það er ekkert minst á þessa fjárveiting í aths. við fjárlagafrv. nje gerð önnur grein fyrir þessu. Þessi maður er, svo sem kunnugt er, kennari við mentaskólann og starfar að leikfimikenslu þar. Jeg geri ráð fyrir, að ekki sje meiningin, að hann haldi því embætti og fái þennan styrk að auki, heldur sje svo til ætlast, að hann láti af embætti og gefi sig óskiftan við þessari íþróttakenslu. Þar sem ekkert er um þetta sagt neinstaðar, enda vitað, að þetta er sett óhugsað og út í loftið, þá sjáum við ekki ástæðu til að veita þennan styrk, og það því síður, sem styrkur til ungmennafjelaganna hefir verið hækkaður til eflingar íþróttum.

Fjórða brtt. er við 16. gr. Upp í 16. gr. hefir hæstv. stjórn tekið nýjan lið um 4000 kr. til steinsteypukenslu. Jeg get vel fallist á, að æskilegt sje, að almenningur fái leikni í því að steypa steina í hús, það því fremur, sem framtíðarlausnin á vandamálum okkar í byggingum hlýtur að verða sú, að alment verði farið að byggja úr steini. Mikil vanþekking hefir til þessa ríkt í þessu efni meðal manna og hafa landsmenn beðið af því mikið tjón. En það er ekki gerð nein grein fyrir því í frv., hvernig þessari kenslu skuli haga. Því höfum við, jeg og hv. 2. þm. Skagf., gert till. um, að þessi kensla fari fram við bændaskólana og unglingaskólana, þar sem því verður við komið. Við bændaskólana mun altaf hægt að fá menn, sem geti haft þessa kenslu á hendi, og í sumum tilfellum einnig við unglingaskólana.

Jeg hefi þá stuttlega gert grein fyrir þessum 4 brtt. okkar hv. 2. þm. Skagf. Það hefði verið ástæða til þess að vísu að minnast á fleiri liði, en bæði fer til þess tími og þó öllu frekar hitt, að ekki er til að dreifa svo mikilli athygli hjer í þessari háttv. deild nú sem stendur fyrir því, sem menn hafa fram að bera, að eyðandi sje tíma og fyrirhöfn í það.

Þó eru 2 eða 3 brtt. frá fjvn., sem jeg get ekki látið hjá líða að minnast á. Fjvn. fer fram á hækkun á styrk til Stórstúku Íslands úr 10 þús. kr. upp í 12 þús. kr. Háttv. frsm. hefir þegar gert grein fyrir þessu, og þarf jeg því ekki að bæta nema örlitlu við. Stórstúkunni hefir undanfarið mikið orðið ágengt í útbreiðslu bindindis, og tala þeirra, sem gengist hafa undir merki goodtemplarareglunnar, hefir ár frá ári aukist stórkostlega. Til dæmis skal jeg lesa upp fjelagatölu reglunnar 4 síðustu árin:

Árið 1925 voru meðlimir reglunnar samtals 6467, árið 1926 7000, árið 1927 8586 og loks árið 1928 10685.

Þetta er engin smáræðis viðbót á svo skömmum tíma. Það er gleðilegt, að þeim mönnum fjölgar, sem vilja helga því starfi krafta sína að útrýma drykkjubölinu hjer á landi.

Á það hefir verið bent, hve útsala Spánarvína hafi minkað síðastl. 3 ár bæði hjer í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Yfirlit yfir þann samdrátt vínsölunnar er á þá leið, að í Reykjavík var selt árið 1925 fyrir 1 milj. kr., árið 1926 fyrir 816 þús. kr. og árið 1927 fyrir 582 þús. kr. Þetta er næstum því helmings lækkun. En í Vestmannaeyjum er lækkunin hraðstígari, sem sjá má af því, að árið 1925 er selt fyrir 196 þús. kr., árið 1926 fyrir 146 þús. kr. og loks árið 1927 aðeins fyrir 62 þús. kr. Vínsalan hefir með öðrum orðum minkað þar um 2/3. Það er bersýnilegt, að hjer eru margir og mikilvirkir kraftar að starfi. Eftir því sem starfið er meira og grípur yfir stærra svæði, því meira fje útheimtist til þess. Mjer finst, að sú minsta viðurkenning frá Alþingi til stórstúkunnar fyrir vel unnið verk, sem hún mun og halda áfram að auka og endurbæta, sje það, að hækka styrkinn til hennar upp í 12 þús. kr.

Enn er brtt. við 22. gr., um að heimila stjórninni að lána úr viðlagasjóði mjólkurfjelaginu Mjöll í Borgarfirði 30 þús. kr. til þess að koma fyrir sig fótum um mjólkurniðursuðu. Jeg hefi litlu við að bæta það, sem stendur í glöggri greinargerð með nál. fjvn., enda hefir og hv. frsm. (BÁ) prýðilega gert grein fyrir nauðsyn þessa máls. Þetta mun vera eina fjelagið í landinu, enn sem komið er, sem bygt er á þeim grundvelli eða hefir með höndum niðursuðu á mjólk og byrgir þannig upp aðra hluta landsins með innlendri mjólkurframleiðslu, er ekki eiga kost á að framleiða næga mjólk sjálfir. Eins og nú er komið ræktun landsins, er hægt að sjá öllum landsmönnum fyrir nægri mjólk með þessu móti. En þetta er einasta leiðin til þess, að því verði komið í verk, því að með niðursuðu má geyma mjólkina óskemda um lengri tíma og senda hvert á land sem vill. Þetta er ekki aðeins hagsmunamál fyrir landið í heild, það er auk þess metnaðarmál og það er sjálfstæðismál.

Jeg vil aðeins benda á að lokum, að komnar eru fram 3 brtt. um endurgreiðslu á fje, sem lagt hefir verið til vegagerða. Þetta á rót sína að rekja til þess, að tekin var upp í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar eftirgjöf á láni, sem veitt var til Flóavegar í Árnessýslu. Jeg á þátt í einni þessara brtt., á þskj. 353,XXXVI, sem er um það að endurgreiða Borgarfjarðar- og Mýrasýslu fjárframlag sýslnanna til Borgarfjarðarbrautar. Jeg þarf ekki að mæla með þeirri brtt., því að háttv. aðalflm. (BÁ) mun gera grein fyrir henni, þegar hann tekur næst til máls.