24.03.1928
Efri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (1459)

122. mál, eignarnám á Reykhólum

Jón Þorláksson:

Við háttv. 1. þm. G.-K. (BK) berum fram brtt. við þetta frv. á þskj. 536.

Málið er þann veg komið til þingsins, að landlæknir hefir snúið sjer til dómsmálaráðuneytisins út af málaleitan hjeraðsbúa í Reykhólahjeraði um læknisbústað. Höfðu þeir hugsað sjer læknissetur á jörðinni Berufirði. Sú jörð stendur mjög miðsvæðis í hjeraðinu, og er fyrir þeirra hluta sakir mjög hentug sem læknissetur. Höfðu þeir jafnvel fest kaup á jörðinni. En nú hefir þeim snúist hugur, og jafnvel sagt að þau kaup sjeu gengin til baka. Óska hjeraðsbúar nú heldur að fá lækni sínum stað í Reykhólalandi. En á því strandar, að ekki hefir gengið saman um kosti og kjör við kaupin. Til þess að ráða fram úr þessu vandamáli, sendi landlæknir dómsmálaráðuneytinu tvær uppástungur. Önnur er samhljóða þessu frv., heimild fyrir ríkisstjórnina að taka Reykhóla eignarnámi, og hugsar landlæknir sjer að viðkomandi læknir hafi aðeins part af jörðinni til ábúðar. Hin uppástungan, sem ekki hefir verið borin fram, er líka í frumvarps formi, og er Reykhólahjeraði þar heimilað að taka eignarnámi spildu úr Reykhólalandi, með þeim ummerkjum, sem tiltekin eru í því frv.

Nú sýnist einsætt að fara þá síðastnefndu leið, og það fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Önnur er sú, að ekki er rjett að blanda ríkissjóði inn í kaup á jarðnæði undir læknisbústaði og sjúkraskýli. Læknishjeruðin eiga sjálf að sjá sjer fyrir því. Ef ríkissjóður ætti hæfilega eign, sem hentug væri í þessu skyni, væri innan handar að láta hana viðkomandi læknishjeraði á leigu. En hjer er um miklu stærri kaup að ræða en þarf til þess að fullnægja þeirri nauðsyn, sem fyrir hendi er. Tel jeg ekki rjett að binda ríkissjóði þann bagga, sem af því mundi leiða. Í öðru lagi telur minni hl., eða við tveir nefndarmenn, sem berum fram brtt., mjög vafasamt, hvort eignarnámsheimildin í stjórnarskránni nái svo langt, að henni megi beita af þeim ástæðum einum, að það þyki hentugt einhverra hluta vegna, að einhver jörð hverfi í eign ríkissjóðs. Hjer er þörfin ekki víðtækari en það, að útvega nægilegt land undir læknisbústað. Í síðari uppástungu landlæknis er gert ráð fyrir 40 hektörum. Viljum við takmarka það við þá stærð, og láta hreppsnefndir viðkomanda læknishjeraðs fá heimild til þess að taka þá spildu eignarnámi úr Reykhólalandi.

Út af öðrum fyrirætlunum hjeraðsbúa verð jeg að segja það, að jeg sje ekki, að þessi leið rekist neitt á þær. Sundlaug má byggja, án þess að gert sje ráð fyrir, að jörðin þurfi að vera í sjerstakri ábúð, hennar vegna. Hvað barnaskólann snertir, þá er stærð þeirrar spildu, sem hjeraðinu er gefinn kostur á að taka eignarnámi, svo rífleg til þeirra hluta, sem hún er ætluð, að vel mætti á því svæði reisa skólahús, án þess að til nokkurs baga væri fyrir lækninn, ef það þætti á annað borð hentara að reisa barnaskóla á þessari spildu, heldur en í landi jarðeiganda.

Að síðustu vil jeg bæta því við, að þótt Reykhólar sje hlunnindajörð og hafi marga kosti frá náttúrunnar hendi, þá er staðurinn svo ákaflega afskektur, að við getum ekki hugsað okkur, að hann geti haft þýðingu fyrir aðra en íbúa þessa fámenna hjeraðs, sem nær aðeins yfir 3 hreppa. Vegna framtíðarfyrirætlana er lítill slægur í eigninni til handa ríkissjóði.