08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (1477)

68. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Flm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg vil til viðbótar við það, sem segir í greinargerð frv. á þskj. 90, og hv. deild mun nú hafa kynt sjer, taka það fram, að hafnargerð á Skagaströnd, eins og frv. fer fram á, mundi samkvæmt fyrirliggjandi teikningum þar um reynast framtíðar- og framfaramál fyrir Skagastrandarkauptún með hinum víðienda Vindhælishreppi, og einnig fyrir alla sýsluna.

En ef höfn yrði bygð á Skagaströnd, mundi sjávarútvegur aukast þar stórkostlega, því að skamt er þaðan að sækja á góð fiskimið. En nú má ekki heita, að sjávarútvegur sje stundaðar þar nema á opnum bátum og aðallega um sumar- og hausttímann. Upplagspláss til fiskverkunar er þar stórt og vel lagað, sem mest alt er eign ríkisins. Telja má því líklegt, ef höfnin væri komin á Skagaströnd, að þar mundi á skömmum tíma myndast stórt kauptún, sem hafa mundi mikla þýðingu hvað sölu snerti á ýmsum framleiðsluvörum hjeraðsbúa, þar sem bílvegir eru nú komnir um meiri hluta sýslunnar. Af þessu mundi svo aftur leiða það, að atvinnuvegir sýslubúa mundu blómgast og taka framförum, bæði sjávarútvegur og jarðrækt, því að umhverfi Skagastrandar er mjög vel fallið til jarðræktar. Hafnargerðin mundi einnig að öllum líkindum draga mikið úr útstreymi fólks úr sýslunni til annara landshluta, en það hefir um undanfarin ár staðið henni fyrir þrifum.

Í framhaldi af þessu vil jeg taka fram, að þegar hafís liggur á Húnaflóa, sem oft hefir að borið, þá er skipunum oft fært inn með Skaganum að vestan inn á Skagaströnd, þó að skip komist að öðru leyti ekki inn á flóann. Allir munu geta skilið, hve mikla þýðingu það gæti haft, er svo stendur á, að hafa fullkomna höfn á Skagaströnd, svo að hægt væri að fá þangað vörubirgðir. Mundi það oft geta komið í veg fyrir eina af alvarlegustu hættum landbúnaðarins, fóðurskortinn, á stóru svæði, það er báðum Húnavatnssýslum, vesturhluta Skagafjarðarsýslu og innri hluta Strandasýslu. Þetta byggist á því, að þegar hafís kemur inn á Húnaflóa, kemur hann altaf fyrst inn með Ströndum, eins og straumar liggja.

Hvað samgöngum á sjó við kemur, mundi það greiða mjög fyrir þeim, einkum ef veðrátta er óhagstæð, ef höfn væri bygð að austanverðu við Húnaflóa, nefnilega á Skagaströnd, og skiftir hafnargerðin, hvað það snertir, þjóðina í heild miklu máli.

Til að skýra málið betur, hvað þetta snertir, vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp brjef frá skipstjóra á strandferðaskipinu „Esju“, snertandi þetta mál:

„Vegna fyrirhugaðrar hafnarbyggingar á Skagaströnd, vil jeg hjer með, samkvæmt ósk góðra manna, láta álit mitt í ljós um þýðingu þessa máls í sambandi við sjósókn og siglingar við Húnaflóa.

Sem vitanlegt er, er Húnaflói eitt af aðalsíldveiðasvæðum landsins og veiðar þar stundaðar fram á haust af stórum og smáum skipum, með stóra báta hangandi aftan í eða í „davíðum“; skip þessi eru því oft illa móttækileg fyrir hörð norðanveður, er þar geta komið. Samfara þessum veðrum er sem oftast mikil úrkoma (hríð), og er þá leiðin á Strandafirðina hulin og hvergi lands að leita fyr en á Siglufjörð. Aftur á móti er austurströnd flóans að mestu hrein, og má þar land taka lengi með varúð, og væri þá höfn á Skagaströnd nauðsynleg.

Það hefir komið í ljós, að Húnaflói er einnig góður staður fyrir þorskveiðar síðari hluta sumars eða á haustin, og mundi þá höfn austan megin flóans gera þá björg almennari og tryggari, ef hægt væri á stærri bátum að stunda hana. Ennfremur mundi höfnin fyllilega eins álitlegur staður fyrir síldveiðar sem Siglufjörður.

Flestir þekkja þær tafir, sem milliferðaskip og strandferðaskip hafa orðið fyrir, sökum vangæfta á austurhöfnum flóans. Venjan hefir verið sú á haustin, að bíða eftir gæftum vestur á fjörðum, og það mun eigi ofmælt, að í það hafi gengið stundum 8–10 dagar (þau árin, sem verst gengur), að ná vörum að og frá borði. Fyrir skip, sem kostar 1.5–1600 krónur á dag, þá er þetta töluvert fje, eftir því sem árin líða. Vegna þess að svæðin eru stór og þjettbygð, sem að þessum höfnum liggja, þá er einskis látið ófreistað að ná sambandi við þær, og þá beðið uns gefur.

Strandferðaskipið hefir nokkrum sinnum tafist þar og ekki verið hægt að koma hvorki fólki nje vörum í land, heldur ekki ósjaldan komið fyrir, að skipið hefir orðið að rífa sig upp frá Blönduósi með hundruð manna innanborðs, þvingað sig gegn ofsaveðrum, ekki náð höfn á Ströndum sökum hríðar og orðið að liggja úti fleiri sólarhringa, og ef þar við bætist frostharka og hafís, munu þá flestir skynberandi menn sjá, um hvað teflt er.

Með tilliti til útflutnings á frosnum og kældum afurðum er höfnin að mínu áliti mjög þýðingarmikil, því að staðurinn er hægur aðgöngu, bæði á sjó og landi, og veit jeg ekki annan, er sameinar þetta tvent betur en Skagaströnd.

Virðingarfylst,

Reykjavík, 20. janúar 1928.

Þórólfur Beck

skipstj. á e.s. „Esju“.

Höfundur þessa brjefs hefir — eins og hv. deild er kunnugt — undanfarin ár haft á hendi siglingar kringum landið, og hefir því þekkingu og reynslu til þess að geta um þetta borið, svo að takandi sje mark á.

Hvað áætlun um kostnað við hafnargerðina viðvíkur, þá hefir hafnarstæðið verið skoðað og áætlun gerð um kostnað árið 1921. Eftir þeirri áætlun átti höfnin að kosta tæpar 750 þús. kr. En nú hefir vitamálastjóri endursamið þá áætlun, og bygt á því verðlagi, sem nú er, og fengið kostnaðinn niður í tæpar 600 þús. kr. Jeg hefi brjef frá vitamálastjóra um það, og er þar tekið fram, að það þurfi nauðsynlega að rannsaka þetta hafnarstæði enn á ný, og telur hann miklar líkur til þess, að þá mundi þessi áætlun, sem nú liggur fyrir, reynast of há, þó að hann jafnframt segi, að það sje ekki hægt að byggja á því, eins og stendur.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að svo stöddu, en vil leyfa mjer að stinga upp á, að málið gangi til 2. umr. og sjútvn.