07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (1617)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Pjetur Ottesen:

Af því að hæstv. dómsmrh. byrsti sig og setti upp mikinn valdsmannssvip, vil jeg aðeins láta hann vita, að jeg er á hvaða tíma sem er óhræddur að deila við hann um þetta mál. Jeg er ekki hræddur við hann, og vona, að hann fái um annað að tala að leikslokum en það, að jeg hafi runnið. Hæstv. ráðh. talar um linku hjá mjer í því, að vilja koma í veg fyrir landhelgisveiðar. Mjer þykir hann satt að segja seilast um hurð til lokunnar, þegar hann ætlar að fara að nota þetta mál til árásar á mig, þar sem jeg hefi lýst yfir því, að jeg vilji vinna með honum að framgangi þessa máls. Þegar jeg rjetti út höndina til bróðurlegrar samvinnu um málið, þá ræðst ráðherrann að mjer með fúkyrðum og fruntaskap. (Dómsmrh. JJ: „Mjög hæpið, að frv. nái tilgangi sínum“, sagði hv. þm.!) Víst sagði jeg það, en það hefir hæstv. ráðh. sjálfur játað, með því að segja, að frv. stæði mjög mikið til bóta.

Jeg þarf ekki að svara hæstv. ráðh. fleiru. Í þessu hátterni hans liggur svo góð mannlýsing, að ekki er hægt um að bæta.