09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (1638)

78. mál, bændaskóli

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg verð að byrja á því að geta þess, að í prentuninni hefir fallið burtu ein gr. úr frv., sem þar átti að vera. En það er ekki veruleg efnisbreyting, enda verður þetta bráðlega lagfært.

Jeg geri ráð fyrir, að öllum hv. þdm., sem frv. þetta lesa, sje það þegar ljóst, að ein aðalbreytingin, sem hjer er farið fram á, er að auka verklega kenslu í skólunum. Að því leyti gengur þetta frv. í sömu átt og frv. það, sem hæstv. forsrh. flytur um bændaskólann á Hólum, og get jeg að því er þetta snertir að miklu leyti vísað til hans framsögu, en við flm. þessa frv. viljum ganga það lengra, að við viljum láta þetta ná einnig til Hvanneyrarskólans.

Aðalbreytingarnar, sem í frv. þessu felast, eru fjórar.

Í fyrsta lagi, að í stað þess að núgildandi lög gera algerlega ráð fyrir, að skólabúin sjeu rekin af einstökum mönnum, „ef öðru verður ekki við komið,“ viljum við gera þá breytingu, að svo skuli aðeins vera „ef hentara þykir,“ og er það gert með það fyrir augum, að nú, síðan kröfurnar um verklegt nám fóru að aukast, líta menn svo á, að í þeim efnum eigi bændaskólarnir að hafa forustuna og svo um ýmsar tilraunir í sambandi við það, sem reknar eru fyrir hönd hins opinbera. Við teljum, að rjett sje, í sambandi við þær breytingar, sem á eftir koma um aukið verklegt nám, að breyta þessum ákvæðum um rekstur skólabúanna. Við leggjum þó engan dóm á þetta, en viljum gefa stjórninni heimild til, ef hún telur hentara, að láta reka búin á kostnað hins opinbera.

Önnur og aðalbreytingin, eins og áður er sagt, er sú, að verklegt nám við skólana sje aukið að miklum mun frá því, sem verið hefir.

Þriðja aðalbreytingin er sú, að stofnuð skuli og starfrækt ársdeild við skólana, er starfi frá hausti til hausts, og sje námið bæði bóklegt og verklegt. Eins og kunnugt er, hefir það stundum verið svo, þegar fullskipað hefir verið í skólunum, að skólastjórar hafa tekið aukanámssveina um eitt ár, sem þó hafa ekki verið útskrifaðir sem reglulegir búfræðingar. Nú gerum við ráð fyrir, að meira muni bera á þessu, eftir að verklegt nám er lögfest. Gerum við ráð fyrir, að í þessari deild sje lögð áhersla á það hagnýtasta í bóklegu námi á vetrum, en eingöngu verklegt nám stundað á sumrum.

Í fjórða lagi viljum við gera það að skilyrði fyrir inntöku í skólana, að piltar hafi stundað að minsta kosti í átta vikur verklegt nám áður. Þetta er eitt af því, sem við leggjum langmesta áherslu á.

Um fyrirkomulag þessa hefir talsvert verið rætt, og menn eigi á eitt sáttir. En jeg er sannfærður um, að þetta er hin sjálfsagðasta breyting.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenskur landbúnaður er skemra á veg kominn en hjá flestum öðrum menningarþjóðum, sem við að öðru leyti stöndum jafnfætis. Aðalástæðan til þessa er sú, að íslenskum bændum er alveg fyrirmunað að taka í sína þjónustu þær vinnuvjelar, sem aðrar þjóðir nota svo mjög. Þeir verða að keppa við þær, án allra slíkra vjela, og innanlands verða þeir að keppa um vinnukraftinn við atvinnuveg, sem rekinn er með allra fullkomnustu tækjum, sem þekkjast. Sjórinn við Ísland er fiskauðugri en víðast annarsstaðar í heiminum, og útgerðin getur hagnýtt sjer allar framfarir í rekstri þess atvinnuvegar. En íslenskir bændur verða fyrst að umskapa landið, gerbreyta því, áður en þeir eru færir um að taka í þjónustu sína þær vinnuvjelar, sem flestum öðrum þjóðum eru svo handhægar.

Það er einmitt þetta, sem jeg álít stærsta viðfangsefnið, sem liggur fyrir, ekki eingöngu íslenskum bændum, heldur líka fyrir hinni íslensku þjóð. Og það er svo mikið, að það er ekki nokkurt vit að ætlast til þess, að bændur leysi það einir af höndum; til þess þurfa að koma alþjóðarsamtök. Þetta er viðurkent af löggjafarvaldinu; það er viðurkent með jarðræktarlögunum, það er viðurkent með þeim tillögum, sem hjer á þingi hafa verið gerðar hvað eftir annað um það, að útvega þeim ódýran áburð. Það er viðurkent með því frv., sem liggur fyrir Alþingi nú, um landnámssjóð, og það er viðurkent af stjórn Búnaðarfjelags Íslands, með því að hún á síðustu árum hefir látið fram fara rækilegar tilraunir um það, hver útlend verkfæri til jarðræktarvinnu væri hentugust og best fyrir okkur.

En það er eitt atriði, sem menn hafa ekki veitt eftirtekt, og það er einmitt það atriði, sem mest ríður á. Það er að kenna bændunum sjálfum að vinna þetta verk. Það hefir verið deilt um það, hvort heppilegra væri að nota nýtísku vinnuvjelar við þetta verk, eða nota hestaflið. En svo framarlega sem verulegur skriður á að komast á það mál, þá verður að kenna hverjum einasta bónda að framkvæma það; það verður að gerast að heimilisvinnu, sem hver einasti maður lærir. Jeg vona, að það verði bráðlega borið fram frv. þess efnis, að enginn megi hafa umráð yfir jörð, án þess að kunna skil á helstu þessháttar verkum. Átta vikna nám er vitanlega það skemsta, sem hægt er að heimta, en ef því er haganlega fyrir komið og áhersla lögð á hyggilega starfsaðferð og verkfæri notuð, þá er jeg sannfærður um, að þetta getur komið að mjög miklu liði.

Jeg geri ráð fyrir, að landbn. fái þetta frv. til meðferðar, að þessari umr. lokinni, og jeg ætla að vona, að hv. deild skilji svo vei nauðsyn þessa máls, að hún taki því með samúð, og að hv. landbn. treysti sjer til þess að taka upp í sitt frv. aðalatriðin úr þessu frv., sem jeg hefi lagt áherslu á, enda þótt hún sjái sjer ekki fært að fallast á frv. óbreytt.