22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (1697)

108. mál, einkasala á tóbaki

Sigurður Eggerz:

Það er aðeins örstutt athugasemd, sem jeg vil gera. Jeg ætla ekki að fara að tala alment um einokun. Til þess munu gefast mörg önnur tækifæri á þessu þingi. Jeg vildi aðeins skjóta því fram til athugunar, hvort það sje rjett, að vera altaf að breyta til, svo að 2 ár sje frjáls verslun með þessa vöru og síðan næstu 2 ár einokun. Því að þótt nú yrði sett á stofn ríkiseinokun á tóbaki, stendur hún að vonum ekki til eilífðar. Ef t. d. frjálslyndi flokkurinn kæmi til valda — og það verður áður langt líður, ef þjóðin á nokkurn þroska fyrir höndum — þá verður henni aftur kipt í burtu. Jeg vildi því leyfa mjer að skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort það sje ekki of mikil óstöðvun á þessu sviði, að varpa þessu máli svo milli flokka, og hvort ekki sje rjettara að láta enn um stund við það sitja, sem er. Jeg hygg líka, að hæstv. stjórn sje í raun og veru alls ekki andvíg frjálsri verslun. Væri æskilegt að fá að heyra yfirlýsing hæstv. forsrh. í þessu efni. Eru það vinsamleg tilmæli mín, að hæstv. stjórn athugi þessar bendingar mínar, og hvort ástæða sje til að breyta svo fljótt um aftur.