10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, fjárlög 1929

Benedikt Sveinsson:

Jeg vildi leyfa mjer að segja fáein orð í sambandi við nál. samgmn.

Þessu nál. var útbýtt á fundi í dag, svo að hv. deildarmenn hafa haft mjög lítinn tíma til að átta sig á þeim tillögum, sem hv. nefnd leggur fram.

Jeg mun nú ekki hlutast til um tillögur hennar að öðru leyti en því, sem við kemur mínu hjeraði.

Undir 13. lið er talinn „Eyjafjarðarbátur, með 3 viðkomum í Grímsey, enda sigli hann og til Húsavíkur og Skagafjarðar“.

Ef þetta ætti að vera endanleg tillaga, sem þingið ætti að fallast á, þá gæti jeg alls ekki samþykt hana, því að gagnvart mínu hjeraði er svo til hagað, að það er alveg afskorið með þessari tillögu. Það hefir altaf verið ákveðið, að Eyjafjarðarbátur skyldi ganga um Norður-Þingeyjarsýslu, til Þórshafnar og jafnvel að Skálum. Þess vegna kom mjer það mjög á óvart, þegar jeg sá, að hann átti aðeins að ganga til Húsavíkur. En þetta kann að vera af því, að það sjeu ókunnugir menn, sem nefndina skipa (JAJ: Nei.), og vil jeg benda þeim á, að Húsavík er ekki á Langanesi, heldur vestan við Tjörnes.

Jeg hefi hjer áætlun bátsins, sem fór þessar ferðir í fyrra, og mun vera í ráði að semja við þann sama bát aftur, en það er mótorbáturinn „Unnur“, og þegar jeg aðgæti ferðirnar árið sem leið, þá sje jeg, að hann hefir farið 6 ferðir til Norður-Þingeyjarsýslu á tímabilinu frá 25. maí fram til 9. september, en þar á móti gengur báturinn til Skagafjarðar alla mánuði ársins, og sömuleiðis til Húsavíkur.

Nú mun jeg ekki vera svo kröfuharður að heimta það, að báturinn gangi vetrarmánuðina til Norður-Þingeyjarsýslu, því að það er um langan veg að sækja. En jeg verð að gera þá kröfu, að báturinn komi við á þeim sömu höfnum og verið hefir undanfarið ár. Jeg æski ekki annars en að ferðum bátsins verði hagað nokkurnveginn á sama hátt og áður. Þó verð jeg að bæta því við, að jeg hefi fengið ósk um það frá mönnum vestanvert við Þistilfjörð, sem eiga langt til kaupstaðar, að báturinn komi svo sem þrisvar á sumri í Viðarvík, sem er vestanvert við Þistilfjörð innanverðan. Þangað koma engin skip, en á hinn bóginn lítill krókur að koma þar við fyrir þau skip, er fara milli Raufarhafnar og Þórshafnar. Jeg vildi því óska þess, að nefndin gengi svo frá málinu, að báturinn kæmi við á þessum stað þrem sinnum á sumri að minsta kosti.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja um þetta og býst við, að hv. nefnd taki þessu vel og ráði hjer bætur á, svo að af misskilningi einum saman verði ekki svo illa frá gengið, að heil sýsla missi þess, sem hún hefir áður haft; jeg er viss um, að það er ekki tilgangur nefndarinnar.

Hvað það snertir, að styrkur til þessara báta hafi verið lækkaður að því leyti, að póststjórnin sje hætt að heimila fje til þeirra, þá þykir mjer sú ráðstöfun ekki skynsamleg nje sanngjarnleg.

Það lækkar að vísu útgjöld til póstmálanna, en þó er jeg ekki viss um, að rjett sje að haga því svo. Menn mega ekki láta það villa sig, þótt styrkurinn til þessa báts sje nokkuð hár, því að hann sparar mjög póstferðir á landi. Báturinn gengur einnig alla leið vestur á Skaga; ekki aðeins til Skagafjarðar, eins og í nál. segir. Vil jeg mælast til þess, að styrkurinn til hans verði ekki lækkaður.

Þá á jeg brtt. á þskj. 435, I, við 12. gr. 9, um 2000 kr. styrk til nuddlækningastofu Jóns Kristjánssonar. Hjer er farið fram á, að tekin sje upp samskonar fjárveiting þeirri, sem samþykt var á Alþingi í fyrra. Þessi læknir sendi þá rækilega umsókn, og eftir nákvæma athugun þótti Alþingi sjálfsagt að verða við óskum hans. Þá voru honum ekki aðeins veittar þessar 2 þús. kr., heldur jafnframt gefnir eftir vextir af viðlagasjóðsláni, er hann hafði fengið til lækningastofunnar. Nú hefir þetta hvorttveggja verið felt niður af fjárlagafrv. hæstv. stjórnar, og veit jeg eigi gerla, hvað veldur. Sennilega hefir henni virst þetta óþarft, en fyrst þingið fjellst á að hjálpa lækninum svo vel í fyrra, getur það ekki gert minna nú en brtt. mín fer fram á. Í fyrra hafði hann eindregin meðmæli landlæknis og bæjarlæknis með umsókn sinni, og eru um það ástæður allar óbreyttar. Þá vil jeg og geta þess, að á þessum lækni hvílir sú skyldukvöð að kenna sína fræðigrein við læknadeild háskólans. Þótt hann geri læknana að vísu ekki sjerfræðinga í nuddlækningum, gefur hann þeim þó skilning á þeirri íþrótt, svo að þeir geta leiðbeint fólki því, er til þeirra leitar úti um landið, um hvort það eigi að fara til Reykjavíkur eða annað og leita sjer lækninga hjá sjerfróðum mönnum. — Vænti jeg, að hv. þd. sje ljóst, að nokkuð hart er farið að þessum lækni, ef nú á að fella niður með öllu styrk þann, er hann hefir í gildandi fjárlögum. Veit jeg, að það mælist illa fyrir, og hefi jeg því leyft mjer að bera fram brtt. þessa.

Jeg er viðriðinn nokkrar fleiri brtt. ásamt öðrum hv. þdm., en þeir munu málavöxtum kunnugri en jeg og munu tala fyrir þeim till. Aðeins vil jeg mæla eindregið með till. um styrk til húsabóta á Ásólfsstöðum. Það kemur langferðamönnum oft illa, sem koma af öræfum, er bæirnir eru svo illa hýstir og hrörlegir, að ekki er þar gisting að fá, og mikil skapraun gestrisnum sæmdarmönnum, er þar búa, að geta ekki sýnt gestum sínum þá rausn, sem höfðingsskap þeirra er samboðin.