07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (1821)

53. mál, friðun á laxi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Fyrir nokkrum árum bar jeg fram frv. til 1. um breytingar á laxveiðilöggjöfinni, þar sem gert var ráð fyrir að banna kistuveiði í ám. Það frv. náði ekki fram að ganga. En úr því að nú eru hjer á ferðinni breytingar á laxveiðilöggjöfinni, þótti mjer rjett að lofa þessu ákvæði einnig að koma undir atkv. hv. þingmanna.

Veiðiaðferð þessi mun ekki vera notuð hjer á landi, svo að nokkru nemi, nema á einum stað, Laxamýri í Þingeyjarsýslu, að minsta kosti ekki svo að jeg þekki til. Þar við Laxá hefir verið uppi eldgömul deila út af þessari veiðiaðferð. Svo þótti þeim sjer vera misboðið, er ofar bjuggu við ána, að jafn rólyndur maður og sjera Benedikt Kristjánsson gerði eitt sinn herhlaup og braut niður kistuna. Það stendur svo sjerstaklega á um Laxamýri, að jörðin á land beggja megin að ánni og hólmana í henni. Nú er áin sama sem lokuð, og fæst varla branda úr henni ofan til, en þó gæti hún sjálfsagt orðið ein með bestu laxám á landinu. Fyrir nokkru var áin leigð eitt sumar, og var þá full af laxi. enda voru kisturnar þá ekki hafðar í henni.

Ef þingið ætlar að opna árósa fyrir laxagöngu, frekar en verið hefir, þá er það óhugsandi að skilja þessa hindrun eftir. Jeg legg til, að sýslunefndum sje heimilt að banna veiðiaðferð þessa. Jeg skal játa, að ekki er víst, hvort ákvæði þetta reynist nógu sterkt, því að hætt er við, að reipdráttur verði í sýslunefnd. En jeg býst við, að á næstu árum verði laxveiðalöggjöf vor tekin til ítarlegrar endurskoðunar og hygg því, að bjargast megi við þessa miðlunartillögu um stund.