27.02.1928
Efri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (1833)

75. mál, verkakaupsveð

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Sjútvn. hefir orðið sammála um að leggja til, að nokkrar lítilsháttar breytingar yrðu gerðar á þessu frv. Breytingarnar eru í því fólgnar, að í stað 5. gr., sem er tilvitnun í lög nr. 55, frá 31. maí 1927, komi ákvæði þeirrar greinar, sem vitnað er í. Þetta er gert vegna þess, að lögin, sem vitnað er í, verða ef til vill feld úr gildi. Nefndin hefir ástæðu til að ætla, að þetta geti komið fyrir, því að þegar er fram komið frv. í Nd., sem gerir ráð fyrir, að lögin falli úr gildi. Síðari breytingin er afleiðing af þessari fyrri breytingu, og er sú, að niðurlag 6. gr., sem er tilvitnun í sömu lög, falli niður og í staðinn verði vísað í 5. gr. þessara laga eins og hún yrði, ef samþykki fengist á breytingunni.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt., þar sem engin mótspyrna hefir orðið, hvorki gegn þeim nje frv.