13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (1846)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Að sjálfsögðu er það bæði æskilegt og virðingarvert, að fram komi tillögur um að afla sem flestum nægilegs veltufjár til atvinnurekstrar. En jeg er ekki enn búinn að átta mig fullkomlega á því, hvort þetta er sú rjetta leið eða sú heppilegasta í þeim efnum. Einstök atriði frv. mættu áreiðanlega betur fara. Það á ekki við að fara langt út í það á þessu stigi málsins. En jeg vil þó benda á, að þessi aðferð, að taka reikningslán erlendis, til eins árs í senn, hefir sína annmarka. Lán, sem þarf að endurnýja árlega, hafa mikinn kostnað í för með sjer. Því er sennilegt, að æskilegra væri að taka stórlán til langs tíma, hvort heldur er til að bæta úr þessum þörfum eða öðrum. Þannig yrði komist hjá margvíslegum óþörfum kostnaði.

Síðasta Alþingi var það ljóst, hver þörf er á auknu veltufje handa atvinnuvegunum. Kom það m. a. fram í því, að samþykt voru lög um að gera framleiðsluvörurnar veðhæfari. Ég veit nú ekki, hvort það er enn farið að koma til framkvæmda að nokkru ráði, enda snertir það mest sjávarafurðirnar.

Jeg geri ráð fyrir, að málið fari að sjálfsögðu til nefndar. Og þótt jeg hafi minst á atriði, sem jeg álít að þurfi að breyta, þá er þar aðeins um bendingu til nefndarinnar að ræða. Jeg ætla mjer ekki að hefja nein andmæli gegn frv., þótt jeg telji líklegt, að það þurfi nokkurra breytinga við. Þó eru til í landinu allmargar lánsstofnanir, sem gætu leyst þetta hlutverk af hendi, og jeg hygg, að ýmsar leiðir geti komið til mála til að afla þeim rekstrarfjár.

Mjer virðist það nokkuð þröngt afmarkað í frv., að lánin skuli altaf endurgreiða á vissum degi eftir 3 til 6 mánuði. Framleiðendurnir geta undir sumum kringumstæðum verið lítt bættari með þess háttar lánum, ef afurðir þeirra eru þá enn óseldar, en bankarnir geta gengið þeim milli bols og höfuðs fyrir vanskilin.

Jeg bið hv. deild loks afsökunar á því, ef jeg hefi farið lengra út í einstök atriði en viðeigandi er við þessa umr., og vænti þess, að málið fái að fara til nefndar.