14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (1877)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Halldór Stefánsson:

Jeg vil leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir um efni frv., áður en því er vísað til nefndar. Frv. er vafalaust borið fram til að ráða bót á lánsfjárskorti smáframleiðenda og sporna við lánsverslun. Þessi tilgangur er góður, og get jeg vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt um skaðsemi verslunarskulda í sambandi við annað mál. En frv. þetta er næsta nýstárlegt í einstökum atriðum, því að þar kemur fram, að smáframleiðendum er ekki ætlaður sami rjettur til lánsfjár og öðrum framleiðendum. Í stað þess á að gera sjerstakar ráðstafanir um lán í þessu skyni, þannig, að lánin verði með einhverjum ölmusublæ, en ekki í hví formi, sem venja er til. Smáframleiðendum er ekki ætlaður sami rjettur og öðrum framleiðendum. Mismunurinn kemur fram í því, að smáframleiðendum er gert að skyldu að ganga í lánsfjelög, til þess að hafa rjett til rekstrarlána. Jeg veit ekki til, að öðrum sjeu lagðar slíkar skyldur á herðar. Vanskil eiga að valda rjettindamissi, en hinsvegar eru mjög strangar reglur um skil. Jeg er ekki að því að finna, en jeg efast um, að slíkum reglum sje beitt við hina stærri framleiðendur. Jeg vildi, að hjer væri látið eitt yfir alla ganga, en ekki skapaðir tveir rjettir í landinu, annar fyrir stærri atvinnurekendur og hinn fyrir hina smærri. Jeg hefi haldið, að ein lög og einn rjettur ætti að gilda í landinu.

Mjer finst því þetta frv. þurfa mikilla breytinga og umbóta, án þess að jeg mæli á móti því, að það geti komið að haldi í annari mynd. Annaðhvort verður að veita smáframleiðendum sama rjett og stórframleiðendur hafa haft til þessa, eða setja reglur þær, sem í frv. eru, um öll rekstrarlán. Ef þetta væri fært til samræmis, hefði jeg ekki tilhneigingu til að mæla á móti frv.

Annar höfuðtilgangur frv. mun vera sá, að sporna við lánsverslun manna. Sú viðleitni er lofleg, en mjer finst tvísýnt, að frv. nái þeim tilgangi. Jeg held, að reynslan mundi sýna hið gagnstæða. Ef tilgangurinn er sá, að draga úr skuldasöfnun manna, þá held jeg, að jafnframt þurfti að setja hömlur við útlánum úr rekstrarlánasjóðunum, og þær allstrangar. Jeg bar fram frv. hjer á þingi í vetur, sem jeg ætlaðist til, að hefði þann árangur, að draga úr lánsverslun og skuldasöfnun. Verð jeg að leyfa mjer að minnast á það hjer, af því að hjer er um eigi alveg óskyld mál að ræða. Það frv. gekk til nefndar, sem afgreiddi málið á þann hátt, að hún lagði til, að það yrði felt. Þó var hún sammála um, að tilgangur frv. væri góður og mundi nást að einhverju eða miklu leyti, og var því sú niðurstaða hennar, að leggjast á móti málinu, næsta kynleg. Jeg álít, að það hefði verið rjett spor í áttina, ef frv. mitt hefði verið samþ., þessu frv. samhliða. Eins og frv. þetta er úr garði gert, hygg jeg að það yrði einungis til þess að auka skuldaverslunina. Úr því að engar hömlur eru settar á lánsverslun manna, gæti farið svo, að þeir, sem eiga að njóta þeirra lána, notuðu sitt gamla lánstraust eftir sem áður, en hefðu reksturslánsfjeð fyrir vasapeninga. Þá fer að verða hætt við vanskilum, er menn eiga að fara að borga hvorttveggja, þá úttekt, er þeir fá út á hið venjulega lánstraust sitt, og rekstrarlánin að auki. Mjer sýnist því bert, að samhliða þessu þurfi að setja reglur um að banna útlán, eða að minsta kosti takmarka þau. Í frv. mínu er ekkert slíkt bann, en ákvæði þess eru á þann veg, að það er miklu varhugaverðara, bæði fyrir þá, sem veita og taka lánin, að gera það, ef frv. mitt verður samþykt.

Jeg vildi gera þessa almennu athugasemd, áður en frv. það, sem hjer liggur fyrir, gengi fram, en jeg mun samt ekki greiða atkvæði á móti því á þessu stigi.