06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í C-deild Alþingistíðinda. (1915)

111. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Þessi tvö frv. eru, eins og háttv. frsm. meiri hl. gat um, svo nátengd hvort öðru, að tæplega er hægt um þau að tala nema bæði í senn. Þungamiðja þeirra beggja í sameiningu er það, að lækka útflutningstoll af síld úr kr. 1.50 niður í 0,75, án þess að ríkissjóður tapi nokkru við þá lækkun.

Eins og nál. minni hl. fjhn. á þskj. 360 ber með sjer, þá getur minni hl. ekki fallist á frekari lækkun á síldartolli en nú er orðið. Áður var hann, sem kunnugt er, 3 kr. af tunnu, en var lækkaður fyrir fáum árum um helmingi. Eins og háttv. frsm. meiri hl. tók fram, þá álítum við í minni hl., að þessi tollur hvíli að 2/3 á herðum útlendinga, og að frekari lækkun á honum þýði, að ljett sje á þeim að sama skapi. Enn teljum við því ekki fært að breyta til. En ef síldartollurinn er látinn standa við það, sem er, þá er hitt alt óþarft, svo framarlega sem ekki er til þess ætlast sjerstaklega, að afla ríkissjóði aukatekna. Sú mun ekki vera hugmynd háttv. flm., heldur hitt, að jafna þessu útflutningsgjaldi haganlegar niður á hina einstöku tegundir síldarafurða. Hingað til hafa útgerðarmenn sóst eftir því að salta síldina, frekar en selja hana í bræðslu, Þeir hafa talið það neyðarúrræði, að selja síldina bræðsluverksmiðjunum; verðið, sem þær gefa fyrir síldina, væri of lágt. Það er sú almenna skoðun, að ekki borgi sig að fiska til hræðslu, nema í bestu veiðiárum. Menn hafa því saltað aflann að mestu leyti, í von um hærra verð fyrir síldina saltaða en það, er verksmiðjurnar gefa fyrir hana nýja. Oft hafa þeir orðið vonsviknir. Verðið hefir reynst óstöðugt og óáreiðanlegt. Hinsvegar er reynsla fengin fyrir því, að markaður fyrir síldarmjöl og síldarlýsi er alveg öruggur. Stefna Alþingis í síldarmálum ætti því að vera sú, að gera mögulegt að fá gott verð fyrir bræðslusíld og hvetja útgerðarmenn til þess að selja síldarafla sinn hræðsluverksmiðjunum, heldur en sitja uppi með hann í von um svo og svo hátt verð, sem síðan reynist tómt tál. Ef því fengist svo fyrir komið, mundu þeir eiga minna á hættu og atvinnuvegurinn verða tryggari. Og um leið minkaði áhætta lánsstofnananna, sem styrkja þennan óvissa útveg, og væri það vel farið.

Bæði frv. stefna í öfuga átt við þetta. Þau örva löngun manna til þess að salta síldina, í stað þess að selja hana í síldarbræðslurnar, með því að útflutningsgjaldið á saltsíld á að lækka svo mjög, en hinsvegar hækka á síldarafurðum þeim, er verksmiðjurnar framleiða; en það mundi leiða til þess, að þær gæfi þeim mun minna fyrir síld í bræðslu en ella. Þetta er óhjákvæmileg afleiðing af því, ef tollurinn lækkar svo sem hjer er stungið upp á. Lægi nær, að afnema útflutningsgjald af síld og síldarlýsi með öllu, til þess að útvegurinn gæti borið sig í hverju meðalári, því að það er aðalatriðið, að því er mjer finst.

Í þessum fáu orðum hygg jeg, að allur aðalkjarni málsins sje skýrður og þurfi ekki fleiri orð um. Minni hl. leggur til, að 2. gr. sje feld burtu úr frv., og virðist háttv. meiri hl. því einnig samþykkur.

Þá þarf jeg aðeins að minnast á brtt. háttv. meiri hl., og afstöðu minni hl. til þeirra. Fyrst er sú breyting, að tollur af hverri útfluttri tunnu af saltaðri síld hækki úr 75 aurum, sem frv. ákveður upp í 1 krónu. Því er minni hl. á móti, af fyrgreindum ástæðum, að hann vill láta útflutningsgjaldið halda sjer eins og það er. Í öðru lagi vill háttv. meiri hl. halda háum tolli, kr. 1.50 á tunnu, af kryddsíld, sem út er flutt. Minni hl. sjer ekki ástæðu til þess að tolla kryddsíld hærra en saltaða, því að efnið, sem í fer, kryddið og sjerstaklega sykurinn er hátt tollað áður, þegar það er flutt inn. Af hverjum 100 kg. af óþurkuðu áburðarefni úr fiski og síldarafurðum fer frv. fram á að taka 60 aura í toll, og eins brtt. háttv. meiri hl. Víða er þessi vara einskis virði, en getur verið sumstaðar, að hún sje 60 aura — máske krónu virði. Því finst minni hl. nefndarinnar það alveg fráleitt, að tolla þessa vöru með 60 aurum. Hún er sára lítils virði og engin markaðsvara, svo menn viti. — Þetta þykir minni hl. óeðlilega hátt, þar sem víða hagar svo til, að engar vjelar eru notaðar til þess að vinna úr vöruna, og ósanngjarnt að taka þá háan toll af þeirri vöru, sem út er flutt.

Minni hl. getur því ekki fallist brtt. meiri hl., en væntir, að hv. deild geti átt samleið með sjer að koma frv. þessu í það horf, sem lagt er til á þskj. 359.