02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (2053)

120. mál, vegurinn frá Markarfljóti til Víkur

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið, en get þó ekki látið þetta mál svo fram hjá mjer fara, að jeg segi ekki örfá orð.

Eins og kunnugt er, er póstleiðin austur um Landeyjar að leggjast niður vegna þess, að Þverá hjá Hemlu er næstum ófær mestan hluta árs, og aur þess komin sandgræðslugirðing yfir veginn, sem talsverðum farartálma veldur. Hefir því tíðkast upp á síðkastið að fara hina efri leið, þ. e. frá Seljalandi og ofar yfir vötnin út í Fljótshlíð. Eru vötnin á þeirri leið oftast fær, þó að ófær sjeu með öllu neðar eða á póstleiðinni.

Nú hafa verið allháværar óskir uppi um það, sjerstaklega í Landeyjum, að fá brú á Þverá, og eins og hv. þdm. vita, hafa slíkar óskir drifið inn í þingið í vetur. Það er að vísu ekki nema eðlilegt, þó að fólkið kvarti, en hitt er jafnframt vitanlegt, að það mundi ærnum erfiðleikum bundið að brúa Þverá hjá Helmu. Aftur á móti eru til gömul lög, frá 1917, um að hlaða fyrir vötnin og veita þeim í einu lagi til sjávar. Losnuðu menn þá við að brúa Þverá og önnur vatnsföll, er þar falla um.

Á þinginu 1926 var veitt fje til að gera tilraun til að teppa í ál einn úr Þverá, en það verk var barnaskapur frá upphafi og bar enda engan árangur, sem við var að búast. Vildi jeg því mælast til þess við hæstv. stj., að hún vildi láta þetta mál til sín taka og vinna að því, að þetta verk, fyrirhleðsla fyrir Markarfljót, verði framkvæmd sem fyrst. Jeg ætla ekki að fara frekar út í það nú, en aðeins benda á það, að ef horfið yrði að því að stífla vötnin og leiða þau í einu lagi til sjávar, þá mundi rísa upp geysimikið land sem auðræktað væri.

Þess skal getið, að jeg minnist á þetta mál í sambandi við þessa tillögu sökum þess, að þó það ekki heyri beint undir hana, þá er það þó skylt, þar sem það lýtur að samgöngubótum, lýtur að því, að rutt verði úr vegi örðugasta farartálmanum í Rangárvallasýslu.

Jeg vænti þess að lokum, að tillagan verði samþykt.