14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. ( Bjarni Ásgeirsson):

Jeg verð að þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir undir till. fjvn. og hve lítt þeir hafa gefið tilefni til frekari svara.

Jeg verð þó að víkja dálítið að hv. 3. þm. Reykv. (JÓ1) út af þeim ámælum, sem hann kom fram með í garð bænda hjer á þingi fyrir þröngsýni gagnvart kaupstöðunum. Jeg get alls ekki tekið á móti slíkum ákúrum orðalaust, sjerstaklega með tilliti til þeirrar breytingar, sem nú er nýbúið að samþykkja hjer í deildinni á jarðræktarlögunum, sem gerir kaupstöðunum eins hátt undir höfði og sveitunum að því er snertir fjárstyrk samkv. II. kafla þeirra laga. Jeg sje ekki, að sjerstök þörf sje á þessari umræddu fjárveitingu, sem hv. þm. fer fram á. Jeg veit ekki betur en Búnaðarfjelagið hafi þetta með höndum. Það er líka í þess verkahring og það fær til þess fje úr ríkissjóði og hefir starfskröftum á að skipa til þess. Í öðru lagi vil jeg benda hv. þm. á, þar sem hann var að tala um, að erfitt væri fyrir kaupstaðabúa að koma upp nýbýlum, að ef lögin um byggingar- og landnámssjóð verða samþ., þá er kaupstöðunum einnig þar gert jafnhátt undir höfði. Annars er ekki nema gott um þetta fjelag að segja, en jeg tel, að Búnaðarfjelag Íslands eigi að hafa forgöngu í þessu máli.

Eina brtt. leiddi jeg af ásettu ráði hjá mjer. Það var brtt. hv. þm. V.-Sk. (LH) um 1500 kr. til Álftveringa til þess að verja engjar fyrir spjöllum. Eftir upplýsingum, sem jeg hefi fengið, mundi þessi styrkur ekki koma áð fullum notum, og fyrv. stj. mun hafa gert samning við Sveitarfjelagið um þetta. Ef þessi till. væri samþ., þá fjelli sá samningur um leið úr gildi.

Annars skal jeg geta þess, að fyrir nefndinni lá beiðni frá bændum í Álftaveri um lánveitingu fyrir hönd sveitarinnar til þess að geta staðið straum af sínum hluta kostnaðar við þetta. Vil jeg ráða hv. þm. til að fara þá leið, og get jeg heitið honum fyrir hönd nefndarinnar, að hún mun styðja það.

Að því er snertir till. fjvn. um 20 þús. kr. til innflutnings sauðnauta skal jeg benda á, að líklegasta leiðin til að koma þessu merkilega máli í framkvæmd mun vera sú, að leita samninga við stjórn Dana um að fá sauðnaut frá Grænlandi. Ef það gæti tekist, hygg jeg, að það yrði ódýrasta leiðin.

Þá vil jeg að lokum aðeins minnast með nokkrum orðum á till. þá, sem fyrir liggur um, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir alt að 320 þús. króna lánum til fjelagsmanna í Samvinnufjelagi Ísfirðinga. Það, sem jeg segi um þetta mál, tala jeg frá sjónarmiði meiri hluta fjvn., þess hluta hennar, sem lagði til, að ábyrgðarheimildin væri veitt, og jeg geri ráð fyrir, að það sje í samræmi við skoðanir Framsóknarflokksins. Það tala margir um þetta á þá leið, að hjer sje eitthvað spánýtt á ferðinni, en jeg get ekki fundið neinn eðlismun á þessari ábyrgð og öðrum, sem þingið hefir heimilað. Við erum nú að ganga frá 250 þús. kr. ábyrgð fyrir Siglufjarðarkaupstað, þó að það sje ekki ný ráðstöfun, heldur gamalt loforð, sem þingið er bundið við. Jeg veit ekki betur en ríkið standi í ábyrgð fyrir Reykjavík fyrir lánum, sem bærinn hefir tekið til hafnargerðar, rafveitu, vatnsveitu og fleira. Menn segja máske, að hjer sje sá munur á, að á síðarnefndu stöðunum sje um fasteignir að ræða, sem veiti meiri tryggingu en bátafloti Ísfirðinga. En mjer er spurn, — hvers virði er t. d. bryggja á Siglufirði eða hafnarmannvirki í Reykjavík, ef atvinnulífið lamast, svo að enginn arður verði af fasteignunum, og hvers virði er þá að eiga veðrjett í þeim? Það, sem alt veltur á, er, að atvinnulífið sje í fullu fjöri. Ábyrgð bæjarstjórnar, hvar sem er, er auðvitað einskis virði, ef atvinnurekstur bæjarbúa er í kalda koli. Það ber alstaðar að sama brunni, að til þess að einstaklingar og bæjarfjelög geti risið undir sínum skuldbindingum, þarf atvinnulífið að vera í viðunandi lagi. Með það fyrir augum og í von um, að það takist að koma atvinnulífinu á Ísafirði á rjettan kjöl, tel jeg hiklaust rjett að veita þessa ábyrgð.

Eftir lýsingum á ástandi kaupstaðarins eru engar líkur til annars en að hallæri verði þar á næstu árum, ef ekki verða gerðar gagngerðar breytingar á högum þorpsbúa og reynt að koma fótum undir þessa einu atvinnugrein, sem getur orðið þeim til bjargar. Jeg skal í þessu sambandi benda á það, að ekki alls fyrir löngu voru Gerðahreppi veittar 40 þús. kr. sem hallærislán. Nú eru íbúar Ísafjarðar 8 sinnum fleiri en íbúar Gerðahrepps voru há, enda er upphæð sú, sem hjer er farið fram á, 8 sinnum hærri, svo að hlutföllin eru í fullu samræmi. Ef það var rjett á sínum tíma að veita Gerðahreppi þetta hallærislán, þá er það engu síður rjett nú að láta Ísafjörð njóta sömu hjálpar til þess að forða honum frá að lenda í sömu fordæmingunni. Jeg fyrir mitt leyti er bjartsýnn á, að þetta fyrirtæki hepnist vel, en hinsvegar hygg jeg, að hallærislán hafi aldrei verið veitt með þeirri vissu, að þau yrðu endurborguð, enda væri óafsakanleg harðýðgi að setja það sem skilyrði, þegar það væri vitanlegt, að fólkið hryndi niður án þessarar ráðstöfunar. Jeg sje ekki annað en að það, sem farið er fram á. sje fyllilega sanngjarnt, hvernig sem á það er litið. Og það, sem er þess valdandi, að jeg fyrir mitt leyti greiði með sjerstakri ánægju atkvæði með þessari ábyrgð, er það, að þetta er í fyrsta sinn, að alvarlegar tilraunir eru gerðar til þess að koma nýju skipulagi á sjávarútveginn á grundvelli samvinnunnar, og þar sem framsóknarflokkurinn byggir stjórnmálastarfsemi sína á þeim grundvelli, tel jeg skýlausa og siðferðislega skyldu flokksins að greiða máli þessu atkvæði sitt. Mesta meinið í fyrirkomulagi útgerðarinnar hefir verið það, að hún er bygð á þeim grundvelli, sem veldur því, að atvinnurekendur og vinnuþiggjendur vaxa hvorir frá öðrum og fjarlægjast, til tjóns fyrir báða aðilja. Það er fyllilega tími til kominn að reyna að lagfæra þetta og sameina þessa tvo flokka í eina persónu, sem er hvorttveggja í senn, eigandi og verkamaður. Það er það fyrirkomulag, sem ræður í sveitum og sem við bændur byggjum á. Jeg sje heldur ekkert á móti því, að upp rísi ný grein í sjávarútveginum: og sjest þá, hvort betra reynist, samvinnufyrirkomulagið eða það, sem áður hefir verið. Þar að auki virðist lögum Samvinnufjelags Ísfirðinga svo fyrir komið, að fjelagið verði sterk hvöt til þess að glæða hið sanna einstaklingsframtak sjómannanna og þar með atvinnulífið í kaupstaðnum.