17.04.1928
Neðri deild: 74. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (2238)

160. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Mjer þykir það dálítið undarlegt, bæði af hv. 1. og 2. þm. Reykv., að halda því fram, að það sje þvert ofan í skoðun deildarinnar, ef till. er samþ. Það er þvert á móti í samræmi við skoðun mikils meiri hl. þessarar hv. deildar, því að þessum hv. þingmönnum er vel kunnugt um, þótt þeir forðuðust eins og heitan eldinn að minnast á það, hvernig á því stóð, að svo fór eins og fór við atkvgr. í þessari deild, þegar frv. um gin- og klaufaveiki var afgreitt. Þeir, sem vildu hafa lögin öðruvísi, þorðu ekki að breyta þeim, af ótta við það, að frv. yrði þá felt í hv. Ed. eða dagaði uppi. Þessir hv. þm. (MJ og HjV) eru þess vegna að reyna að fljóta á þessu hálmstrái, en þeir drukna jafnt fyrir því, hvort sem þeir halda sjer í það eða ekki. Það er nú ekki meira flotholt í því en það.

Með þessari till. er valin sú eina leið, sem fær er til þess að láta meiri hl. vilja þessarar deildar koma fram, og jeg vænti, að meiri hl. þessarar hv. deildar álíti sig ekki svo bundinn við fyrirskipanir hv. 1. og 2. þm. Reykv. að hann hopi á ný frá sinni grundvölluðu sannfæringu.