11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (2257)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Flm. (Jón Þorláksson):

Hæstv. ráðh. (JJ) byrjaði ræðu sína með því að segja, að jeg hefði lýst yfir, að jeg meinti ekkert með þáltill. þeirri, sem hjer er um að ræða, og jafnvel heitið stj. fylgi. Jeg verð nú að segja, að þessi ummæli sakbornings — því það er hæstv. dómsmrh. (JJ) í þessu máli — sýna, eins og annað, hvað hæstv. ráðh. leggur litla stund á sannleikann og að hafa rjett eftir orð andstæðinga sinna.

Jeg sagði ekki þetta, heldur tók jeg það fram, að þáltill. væri ekki upp borin til þess að dómsmrh. legði niður völd, heldur til þess að slá því föstu, hvort svona skýlaus lögbrot ráðherra eigi að haldast uppi framvegis eða ekki. Um hitt getur hæstv. dómsmrh. átt við sjálfan sig, ef þáltill. verður samþ. hvort heldur hann vill fara eða sitja áfram í sætinu með hirtingu þeirri, er Alþingi veitti honum.

Hæstv. dómsmrh. gat ekki stilt sig um, fremur en svo oft áður, að hnjóða í látinn andstæðing sinn, Jón Magnússon, fyrrum forsrh. Og þó að jeg hafi ekki hjer við höndina skjöl eða önnur gögn til að ósanna orð hans um afstöðu Jóns heit. Magnússonar til varðskipamálsins, þá veit jeg, að það er rangt, að sá látni heiðursmaður hafi verið á móti varðskipinu „Þór“. Mjer er líka mjög vel kunnugt um, að hann bar strandvarnir alveg sjerstaklega fyrir brjósti. Það var eitt sinn dálítið þref við Danastjórn um þátttöku okkar í landhelgisgæslunni, og veit jeg ekki betur en að það væri Jón heit. Magnússon, sem leiddi það mál til lykta og fengi viðurkendan af öllum rjett okkar til landhelgisgæslu.

Þá þótti mjer dálítið hjákátlegt, að hæstv. dómsmrh. hafði ekkert hugsað um það ákvæði 22. gr. stjórnarskrárinnar, sem jeg las upp, og virtist heldur ekki skilja það. Hann hjelt það ætti við, ef konungur synjaði um staðfestingu laga. Nú vita allir, að þau lög, sem konungur synjar um staðfestingu á, eru burtu fallin um leið og synjunin fer fram. En þetta ákvæði stjórnarskr. á einmitt við það atriðið, sem hæstv. dómsmrh. mintist á, að Hannes Hafstein hefði ekki borið lotterílögin upp fyrir konungi. En um það átti H. H. við næsta þing, er kom saman á eftir. Lögbrot var það ekki.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að jeg hefði þverskallast við að framkvæma lögin um búnaðarlánadeildina, þangað til jeg hefði verið kúgaður til þess. Jeg vil nú spyrja: Hverjir hefðu átt að kúga mig til þess að leiðrjetta þegar í upphafi missögn, sem slæðst hafði inn í blöðin um það, að jeg hefði átt að neita að framkvæma lögin.

Annars tekur það sig spaugilega út mínum augum, að blað eins og Tíminn, sem jeg les mjög sjaldan, hafi kúgað mig, og á því tímabili las jeg aldrei eitt einasta blað af honum. Mjer hefir virst hann mjög ómerkilegt saurblað, þá sjaldan jeg hefi sjeð hann, og talið yfir höfuð mínum tíma illa varið til þess að lesa þann Tíma.

Þá þótti hæstv. dómsmrh. ósvinna af mjer að ámæla sjer fyrir lögbrot, af því að jeg hefði sjálfur brotið lög.

Þegar jeg ber fram þáltill. um að víta lögbrot dómsmrh., þá er jeg að gegna þingmannsskyldu minni. En þegar hæstv. dómsmrh. segir þetta, þá er hann hvorki að gegna þingmannsskyldu sinni nje ráðherra, heldur er hann að þjóna lund þess manns, sem brennimerktur er fyrir það, sem allir vita. Jeg veit vel, að jeg hefi gerst brotlegur við áfengislögin, en hitt kannast jeg ekki við, að jeg hafi verið dæmdur fyrir það. (Dómsmrh. JJ: Þm. veit, að hann er dæmdur stórsekur!). Jeg gæti líka sagt ýmislegt um sprúttsölu hæstv. dómsmrh. (JJ), því eins og stendur mun hann vera stærsti sprúttsali landsins, (Dómsmrh. JJ: Já, jeg er yfirmaður spánarvínbúðanna, en jeg lauma ekki víni í land til að drekka það sjálfur), en jeg ætla að sleppa því og ekki blanda hlátursefni inn í þær alvarlegu umr., sem hjer eru á ferðinni.

Hæstv. dómsmrh. kom enn með þá fullyrðingu, að fyrv. stj. hefði ekki framkvæmt lögin, og fór að lýsa því, að launagreiðslur til starfsmanna varðskipanna hefðu gengið í gegnum skipstjóra og stýrimenn. En jeg hefi skýrt frá því, að fyrv. stj. var byrjuð á því að láta greiða starfsmannakaupið eftir lögunum. En þegar kaup er borgað eftir launalögum, þarf að halda eftir iðgjöldum í lífeyrissjóð og ennfremur að athuga aldur starfsmannanna og reikna þeim aldursuppbætur eftir því, sem þeir hafa lengi starfað, en þetta er ekki hægt að fela skipherrum varðskipanna, heldur verður það að vera í höndum ríkisfjehirðis.

En til þess að sanna, að fyrv. stj. hafi byrjað að greiða þessum starfsmönnum laun eftir lögunum, þá hefi jeg hjer í höndum skrá yfir starfsmennina á „Óðni“, og er hún útbúin öldungis í sama formi eins og allir aðrir launalistar og er samhljóða því frumriti, sem fjármálaráðuneytið hafði sent gjaldkera skipanna til þess að borga eftir. Það þarf ekki að taka neina æfiferilsskýrslu af mönnunum, heldur er nóg að vita um þjónustualdur þeirra.

Jeg ætla ekki að tefja tímann með því að lesa þetta skjal upp, en það liggur hjer til sýnis öllum, sem vilja ganga úr skugga um það, að jeg segi rjett frá, að fyrv. stj. hafði ákveðið, að frá 1. júlí síðastl. skyldu laun starfsmanna varðskipanna greidd samkv. lögunum. Um þetta má spyrja skrifstofustjórann í fjármálaráðuneytinu og aðra, sem um það vita, svo það þýðir ekkert fyrir hæstv. dómsmrh., þó hann í fáfræði sinni og vandræðum reyni að halda hinu gagnstæða fram, sem verður hjá honum fálm út í loftið og bygt á röngum staðhæfingum. Hefði hann spurst fyrir um þetta í fjármálaráðuneytinu, verð jeg að halda, að hann hefði ekki slegið um sig með slíkum blekkingum.

Samskonar skrá var þá verið að semja um launagreiðslur til mannanna á „Þór“, en erfitt að vita um þjónustualdur þeirra. Var því greidd í bili einhver upphæð af launum mannanna, meðan skráin var ekki fullgerð.

Jeg held, að jeg hafi þá leiðrjett helstu rangfærslurnar viðvíkjandi sjálfu málinu, sem hæstv. dómsmrh. kom nú með í síðustu ræðu sinni, og átti að vera tilraun, en máttlaus þó, til þess að draga athygli þingheims frá kjarna málsins, sem er skýlaust lögbrot dómsmálaráðherra.