06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2525 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Halldór Steinsson:

Hv. frsm. taldi það lítil rök hjá mjer, að ekki bæri að banna innflutning vöru vegna þess að hún væri holl. En það verð jeg að telja rök, meðan þetta er ekki eina vörutegundin, sem skaði getur af hlotist og innflutningur er leyfður á. Ef því er slegið föstu, að gin- og klaufaveiki geti ekki borist til landsins, ef frv. verði samþ. óbreytt, þá fellur sú röksemd. En það er langt frá, að lögin sjeu tæmandi í því efni. Þau eru kák og ekkert annað. Skiftir því minstu máli, þó þessi þarfa vörutegund sje feld úr þeim. (Forsrh. TrÞ: Þau eru orðin kák, en voru það ekki). Þau hafa altaf verið kák, Ef við vildum vera vissir um, að veikin bærist ekki hingað, yrðum við að einangra okkur. Veit jeg ekki, hve glæsilegt hv. þm. þætti það. Það dugir ekki að byggja loftkastala um, að okkur takist að bægja veikinni á braut með því að banna vissar vörutegundir, sem við þó ekki vitum, hve hættulegar eru, heldur verðum við og að hafa hliðsjón af því, hvort þær eru nauðsynlegar, og vega þar á milli.