09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Það er ekki nein ástæða til að tala um þetta sem sjerstakt flokksmál. Mjer er ekki kunnugt, að það hafi verið flokksmál á undanförnum þingum. Það er enginn flokkur hreinn af því að hafa reynt að spilla þessu máli í Ed.

Viðvíkjandi því, að þetta frv. innihaldi sjerstaklega nauðsynleg og mikilsverð ákvæði þrátt fyrir limlestinguna, þá kem jeg eiginlega ekki auga á það. Það skyldi þá bara vera sú heimild, sem hæstv. stj. er lögð í vald, að gera ráðstafanir, ef veikin bærist til landsins; þetta er aðalnýmælið í frv. eins og það var flutt nú, frá því sem var í fyrra, auk þess sem sett er í 5. gr. ákvæði um spendýr, sem kynnu að vera með skipum, sem hingað koma. Eitthvað lítilsháttar er einnig viðvíkjandi innflutningi á mönnum. Annað sje jeg ekki.

En hinsvegar er það, að þetta frv. hefir sætt þeirri óskapa meðferð í Ed., að það má alls ekki við svo búið sitja.

Og jeg kann því illa, að hæstv. ráðh. skuli hálfpartinn vera að telja kjarkinn úr deildarmönnum til þess að gera sína skoðun gildandi í þessu máli. Hann vildi halda því fram, að það stæði nokkuð á sama, hvort tryggingarákvæði væru sett inn í frv. nú, því að Ed. mundi fella þau niður aftur. Nei, þó að Ed. hafi orðið þessi vandræði á, þá vil jeg ekki líta þeim augum á þá hv. deild, að hún geti ekki bætt ráð sitt. Og jeg vil, að afstaða Nd. í málinu sje nú eins og í fyrra, þannig að hún samþ. öflugar ráðstafanir þessu máli viðvíkjandi, og í fullu trausti þess, að hv. Ed. fari ekki að brjóta niður þann varnarmúr, sem þessi hv. deild kynni að vilja hlaða gegn þessum vágesti.