14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Einar Jónsson:

* Jeg mun halda uppteknum hætti um það að vera ekki langorður. En jeg verð að segja fáein orð út af ásökunum þeim, er landbn. hafa verið bornar á brýn, einkum af hv. þm. Borgf. Jeg viðurkenni hvern þann þm., sem vill gera alt til að verjast þeim vágesti, sem gin- og klaufaveikin er. En samt hlýt jeg að undrast það hjá jafnsanngjörnum manni og hv. þm. Borgf., er hann ber nefndinni það á brýn, að það sje af ótta við ímyndaða mótstöðu hv. Ed., að hún vill gera tilslakanir sínar. Hv. þm. veit það vel, að hjer er um að velja annaðhvort engar varnir gegn veikinni eða þær, sem í frv. greinir eins og það er nú. Hv. þm. hafði þau orð, að honum þætti skörin tekin að færast upp í bekkinn, er landbn. æti nú ofan í sig alt, er hún hefir áður sagt. Jeg hefði ekkert út á þetta orðalag að setja, ef nokkrar líkur væru fyrir því, að hv. Ed. fjellist á þær breytingar, er landbn. vildi gera á frv. En jeg skammast mín ekkert fyrir að vilja ekki tefla málinu á tvær hættur. Jeg álít fylstu ráðstafanir rjettmætar, en jeg vil ekki, að málinu sje öllu stefnt til falls með því að ganga of langt. Jeg er sannfærður um, að upptalningin á bannvörum getur aldrei orðið tæmandi, þó að þeim mun nær verði komist, sem fleira er talið.

Hv. þm. Borgf. talaði um það, að nú væri að koma í ljós þriðji aðilinn í þessu máli í viðbót við þá, sem fyrir voru. Það eru stjórnarvöld Dana. Óskaði hv. þm. þess, að Alþingi færi ekki að skríða undir pilsfald Dana. Jeg hugsa nú, að fáa langi mikið til þess. En hv. þm. ætti að fara varlega í því að bera fram getsakir til manna, því að einhverjum kynni þá að detta í hug að nefna við hann Akraneskartöflur. Auðvitað dettur mjer ekki í hug að væna hann þess, að hann láti þær ráða atkv. sínu, en það er þó ekki fjær sanni en ásökun hans. Jeg vil óska þess, að menn geti slept öllum óþörfum getsökum og vinni að því að koma málinu í það horf, er hverjum þykir best.

Jeg veit, að hv. þdm. hafa tekið eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh. um afstöðu hv. Ed. Mjer þykir hún sennileg og í samræmi við það, er jeg hefi heyrt frá öllum öðrum nema hv. þm. Borgf. Því hlýt jeg að hafa sömu afstöðu í málinu og hæstv. ráðh., og get jeg ekki tekið á móti ákúrum fyrir það, að jeg vil leita skynsamlegs samkomulags.

Þó að jeg vilji sjaldan vaka yfir umr., hafði jeg hjartanlega gaman af þeim á tímabili í nótt sem leið, er þeir áttust við út af myndum í grínblöðum hv. þm. Borgf. og hæstv. fjmrh. Þegar jeg heyrði ásakanir háttv. þm. til landbn. fyrir kattarþvott, undanlátssemi o. s. frv., þá datt mjer í hug, að vonandi væri, að grínblöðin þyrftu ekki að birta myndir af gin- og klaufaveikri skepnu vegna þrákelkni hv. þm. Borgf. í málinu. Hvorugur þeirra hæstv. ráðh. og hv. þm. er svo fallegur, að mig langi til að sjá lasinn grip, sem sje öllu ljótari. En það kemur varla málinu við.

Jeg hafði punktað smávegis fleira hjá mjer, en aðrir hafa tekið fram flest af því, og get jeg því látið staðar numið. Jeg vona, að hv. sessunautur minn (PO) misskilji ekki, þótt jeg hafi rekið ögn í hann hníflana. Jeg geri ráð fyrir, að hann rísi upp til andsvara, og jeg veit, að hann svarar drengilega, svo sem hann á vanda til.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)