16.03.1928
Efri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2781 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara og flyt brtt. á þskj. 486. Í þeim er fyrst farið fram á þá breytingu frá ákvæðum frv., að heimilt sje að verja skólagjöldunum í þarfir skólans. Þetta felst í brtt. við 6. gr. Í frv. er ætlast til, að ríkissjóður og bærinn kosti skólann að hálfu hvor; auk þess á ríkissjóður að greiða skólastjóra laun, en kenslugjöldin á að leggja í sjóð, sem skólanefndin ráðstafi árlega svo sem best má verða nemendum til gagns. Þessu vil jeg láta breyta í þá átt, að skólanefndin annist fjárstjórn skólans, svo að ráðstöfun skólagjalda sje óbundin af löggjöfinni. Að öðru leyti verði skólinn kostaður af ríkissjóði og bæjarsjóði Reykjavíkur. Jeg hefi, með því að færa tillag ríkissjóðs frá ½ niður í 2/5, viljað sýna, að það er ekki ætlun mín að sýna ríkissjóði áleitni. Jeg tel, að eftir því sem hjer er ástatt, megi gera ráð fyrir, að mikið fje komi inn í kenslugjöldum og að rjettast sje að verja því til starfrækslu skólans. En 2/5 er talsvert neðan við það, sem ríkissjóður borgar nú alment til þeirra föstu ungmennaskóla, sem nefndir eru hjeraðsskólar.

Þá hefi jeg í 2. brtt. minni orðað heimild fyrir ríkisstjórnina til að leggja fram 2/5 hluta byggingarkostnaðar skólans, gegn 3/5 hlutum annarsstaðar frá og gegn því, að Reykjavíkurbær leggi til lóð undir skólann, er ríkisstjórnin taki gilda. Þetta framlag er sniðið eftir því, sem hingað til hefir verið venja að setja í fjárlögin um framlag til hjeraðsskólanna. Mjer hefir að vísu verið sagt, að fram sje komin uppástunga um að hækka tillag ríkissjóðs til hjeraðsskólanna upp í ½ í næstu fjárl., en mjer þótti ekki ástæða til annars en að halda mjer við þá venju, sem ríkt hefir í þessu efni. Á þessa brtt. legg jeg mikla áherslu, vegna þess að það er sannfæring mín, að sú skólastofnun, sem hjer er um að ræða, komi ekki að miklum notum, fyr en skólanum sje sjeð fyrir sæmilegu húsnæði. Mjer virðist þetta frv., einnig að öðru leyti vera ófullkomið að því er snertir alla innri tilhögun skólans. Það er ekki gert ráð fyrir, að skólatíminn verði nema tvö ár. En í öðru frv. — um gagnfræðaskóla á Ísafirði — er gert ráð fyrir þriggja ára námi. Stjfrv. ætlar skólanum ekki nema einn fastan starfsmann, skólastjórann, og nefndin hefir síðan fallist á að hafa einn fastan kennara. En við Ísafjarðarskólann á að vera skólastjóri og 2–3 fastir kennarar. Að ýmsu öðru leyti eru ákvæði frv. ófullkomin. Jeg hefi samt ekki viljað gera frekari brtt., því að ef frv. nær fram að ganga hjer, fer það til Nd. og mentmn. þeirrar deildar, en formaður hennar er sjálfur fræðslumálastjórinn. Jeg treysti honum betur en mjer til að bera fram brtt. um innri tilhögun skólans. En með þessum naumleik á tíma og kröftum og án húsnæðis tel jeg ekki, að skólinn fullnægi því, sem á að vera annað ætlunarverk hans, að draga til sín nokkuð af þeim straumi, sem nú leitar til mentaskólans. Til þess að ná í þann straum, sem allir telja æskilegt að verði, þarf að koma á fót myndarlegri stofnun, sem hefir aðdráttarafl fyrir þann æskulýð, sem ekki er fyrirfram ákveðinn í því að halda áfram að stúdentsprófi. Þetta er svo aðkallandi þjóðfjelagsþörf, að hver sú úrlausn, sem ekki nær að leysa þennan hluta verkefnisins, er misráðin. Svona stofnun getur að vísu orðið til gagns fyrir bæjarbúa, en hún fullnægir ekki þeirri sameiginlegu þörf alls landsins, að ljett sje aðstreyminu að stúdentaskólanum. Það spor, sem þarf að stíga til þess að skólinn fullnægi þeirri þörf, er fyrst og fremst að koma upp handa honum góðu húsi.

Jeg vil bæta því við, í framhaldi af því, sem hv. frsm. nefndarinnar sagði, að fyrir Nd. liggur frv. um samskóla. Þar er gert ráð fyrir skóla eins og þessum, en hann er kallaður ungmennaskóli. Jeg álít, að þó að þessu máli sje ráðið til lykta og stofnaður verði gagnfræðaskóli, sje á engan hátt gripið fyrir samskólafrv., því að þessum skóla er hvort sem er ætlað að vera einn liðurinn í samskólanum.