28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2827 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg get ekki algerlega leitt hjá mjer umr. þessa máls.

Jeg skil svo frv., að það sje fram komið vegna þess öfugstreymis, sem mun hafa átt sjer stað, að lögin virðast ekki ætíð jöfn fyrir alla.

Hæstv. dómsmrh. hefir skýrt frá, að í þeirri viðureign, sem orðið hefir milli kaupfjelaga og annara verslana, hafi dómstólarnir álitið rjett að gera þar mjög upp á milli. Það liggur því í augum uppi, að full þörf er á að ráða bót á þessu. Jeg veit ekki, hvort frv. þetta bætir að fullu úr þessu misrjetti, en hitt þykist jeg sjá, að það sje að minsta kosti tilraun, sem gengur í rjetta átt.

Jeg vil benda á, að menn virðast gera talsverðan mun á samábyrgð og sjálfsskuldarábyrgð, en þann eðlismun hefi jeg ekki sjeð nje getað skilið til fulls, að samábyrgð væri annars eðlis en sjálfskuldarábyrgð fleiri manna. Þess vegna hefi jeg heldur aldrei skilið, hvers vegna önnur tegund þessarar ábyrgðar er fordæmd, en hin talin góð og gild.

Mjer finst ekki auðvelt að færa rök fyrir því, ef venjuleg sjálfsskuldarábyrgð fleiri manna sje óskaðleg, eins og hún er rekin í framkvæmdinni, að þá geti samábyrgð margra stærri og smærri fjelaga verið stórskaðleg og til niðurdreps fyrir þjóðfjelagið. Jeg vil ekki viðhafa svo stór orð sem þeir eiga skilið, er þannig gera upp á milli, en þó liggur næst við að segja, að þeir geri það á móti betri vitund að fella slíka dóma, sem vitanlega eru ekki annað en sleggjudómar.

Út af því, sem hv. 3. landsk. sagði um ríkisrekstur, að slík fyrirtæki yrðu að sjálfsögðu að þola alla gagnrýni, að mjer skildist, og hvers eðlis, sem hún er (JÞ: Ekki sagði jeg það!), þá get jeg að vísu verið honum sammála að því leyti, sem um rjettmæta gagnrýni er að ræða, en hinu er jeg algerlega móti, að slíkur rekstur, þótt opinber sje, eigi að þola órjettmæta og órökstudda „kritik“, sem meðal annars lýsir sjer í því að misnota tölur og rangfæra sjer í vil, til þess að skapa það álit, að slíkur rekstur hafi farið þeim mönnum illa úr hendi, er honum áttu að stjórna.

Jeg vil þá í þessu sambandi minnast þess, að mjer finst hv. 3. landsk. ekki hafa verið mjög vandur að því að nota tölur, þegar verið var að tala um landsverslun. (JÞ: Jeg vildi gjarnan fá að heyra, hvenær jeg hefi farið með rangar tölur). Já, jeg skal svara því strax. Þegar verið var að tala um að eyðileggja landsverslunina og leggja skyldi niður tóbaksverslun ríkisins, þá var því haldið fram í blaðinu „Verði“, sem jeg verð að halda, að staðið hafi það nærri hv. 3. landsk., að vorkunnarlaust hefði verið að fara rjett með —, en í blaðinu var því haldið fram, að rekstrarkostnaður verslunarinnar hefði orðið 40 til 50%. En þetta var gert í villandi skyni, því að þegar svo er tekið til orða um kostnaðinn, þá er altaf miðað við verslunarveltuna, en ekki við hagnaðinn. Í þessu lá blekkingin, og það er hart af manni í þeirri stöðu, sem hv. 3. landsk. var þá, að kostnaður, sem aðeins nam 2%, skuli í opinberri blaðagrein talinn 40–50%. Það er þetta, sem jeg kalla að fara gálauslega með tölur, og það getur ekki verið gert nema í þeim tilgangi einum að tortryggja í augum landsmanna þennan ríkisrekstur. Þess vegna sje jeg ástæðu til að taka það fram, að slík fyrirtæki, þó rekin sjeu fyrir reikning ríkisins, þarfnast ekki síður rjettarverndar heldur en þau, sem rekin eru af einstökum mönnum. Þess vegna skil jeg ekki, hvers vegna t. d. verslun Björns Kristjánssonar eigi að vera rjetthærri heldur en fjelag, sem samanstendur af mörgum borgurum ríkisins. Og jeg skil heldur ekki, hvers vegna hv. 3. landsk. leggur á móti frv. og vill því láta haldast, að heimilt sje að áfella ríkisrekstur með órökstuddum sleggjudómum. Og að fyrir einstaklingana eigi það við, eins og stendur í vísunni: „að allan andskotann er þar hægt að gera“, þá verði þó það opinbera að þola möglunarlaust hverskyns álitsspilli sem er.