03.02.1928
Efri deild: 13. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2926 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

51. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Halldór Steinsson):

Hæstv. dómsmrh. virðist hallast að þessu frv. og viðurkenna rjettmæti þess. Hann hjelt því fram, að Þór væri mjög svo ófullkomið skip, enda hefði það aldrei verið svo útbúið, að það gæti talist reglulegt varðskip. Það er einmitt vegna þessa, að mjer finst svo mikil ástæða til að sinna þessu máli. Það getur vel farið saman, að nýtt strandvarnarskip verði bygt og að það skip verði ekki endilega látið verja Faxaflóa og Breiðafjörð, heldur verði Þór tekinn til þess. Jeg verð að segja, að ljelegra skip en Þór getur alls ekki komið til greina til þess starfa. Þó að í einstökum tilfellum mætti nota vitabátínn á litlum bletti, þá er ekki hægt að ætla honum að verja alt svæðið frá Snæfellsnesi að Garðskaga. Það hefir einmitt komið í ljós þessa dagana. Þegar vitabáturinn fór í burtu, kom strax einn togari og fiskaði á næturnar. Það þarf miklu hraðskreiðara skip en vitabátinn til þess að geta annað landhelgigæslunni á öllu þessu svæði. En Þór mundi geta það. Ef skipstjórum togaranna væri kunnugt um, að sjerstakt varðskip væri haft á þessu svæði, mundi hræðslan við það halda þeim frá landhelginni. Mjer finst því ástæða hæstv. dómsmrh. frekar hafa ýtt undir, að frv. verði samþ. en hitt.

Jeg held, að jeg þurfi ekki að svara hæstv. dómsmrh. og háttv. 5. landsk. meira. Jeg held því fram, að það er staðreynd, hvernig sem á því stendur, að mennirnir á togurunum frjetta um allar hreyfingar varðskipsins og kærur, sem sendar eru í stjórnarráðið.