24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2937 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

51. mál, landhelgisgæsla

Pjetur Ottesen:

Það gleður mig, að svo virðist, sem þær vonir, er jeg ljet í ljós við 1. umr. um eindrægni í þessu máli, ætli að rætast. Út af því, sem fram hefir komið um það nú við þessa umr., að skip þetta skuli hafa björgunartæki, skal jeg geta þess, að jeg er því fyllilega samþ., en tek það þó fram, að jeg álít, að meðan við höfum ekki fleiri skipum á að skipa til strandvarna, geti björgunarstarfsemin ekki orðið neitt aðalstarf þessa skips. En jeg tel það sem sagt sjálfsagt, að skipið hafi útbúnað til að draga skip af grunni. Einnig get jeg fallist á, að sjeð verði fyrir því, að meiri áhöld verði á skipinu til lækninga en alment gerist. Geta ávalt þau atvik orðið, að slíkt sje nauðsynlegt, enda þótt sú nauðsyn sje ekki eins brýn nú og hún var, er mestur hluti fiskiflotans var seglskip, sem áttu auðvitað miklu óhægara með að ná til læknis en gufuskipin og vjelbátarnir nú á tímum.

Jeg vil bæta því við, að þegar frv. var borið fram í Ed., var gert ráð fyrir sjerstöku varðskipi á Breiðafirði og Faxaflóa. Hv. flm. (HSteins) gekk að vísu inn á að kippa þessu ákvæði burtu, en í nál. var brýnt fyrir stjórninni, hver nauðsyn væri á landhelgigæslu einmitt á þessu svæði. Breiðifjörður og Faxaflói eru hið stærsta samfelda fiskisvæði hjer við land og fiskur ávalt einhversstaðar á því svæði árið um kring. Nú er það kunnugt, að Þór þykir orðinn ófullkominn til strandvarna, einkum ef hann þarf að sækja um stórt svæði.

En hinsvegar myndi hann koma að fullum notum á takmörkuðu svæði, eins og því, sem hjer er um að ræða. Væri því rjett að taka til athugunar, hvort ekki væri heppilegt að hafa Þór staðbundinn á Faxaflóa og Breiðafirði eftir að þetta nýja skip er hingað komið. Jeg skýt þessu fram til hæstv. stjórnar vegna hinnar miklu nauðsynjar á strandgæslu á þessu svæði.