28.02.1928
Efri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3130 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Björn Kristjánsson:

Þetta verður aðeins stutt leiðrjetting, því að jeg talaði nógu rækilega um málið alment við 1. umr. Jeg ætla aðeins að leiðrjetta nokkrar skekkjur í ræðu hæstv. dómsmrh., sem hv. 3. landsk. hljóp yfir. Það var nú eins og vant er, þegar þessi hæstv. ráðh. segir eitthvað eða skrifar, að honum var svo undur ótamt að segja rjett frá. Annaðhvort getur hann það ekki eða vill ekki, og er það síðara eins sennilegt.

Hæstv. ráðherra sagði, að það væri merkilegt, að við íhaldsmenn værum nú á móti þessu máli, þar sem íhaldsmaðurinn Einar Þorgilsson hefði orðið fyrstur til að bera fram frv. sama efnis. Þessa blekkingu vil jeg leiðrjetta. Jeg greip fram í fyrir hæstv. ráðh. og bað hann skýra frá, á hvaða grundvelli frv. hafi verið fram borið. Það vildi hann ekki, og af því marka jeg, að hann hafi þarna farið með vísvitandi blekkingar. Í fyrra skiftið, sem Einar Þorgilsson bar þetta fram, var það í sambandi við þingmannafjölgun í Reykjavík. Þá, á þingi 1920, bar E. Þ. fram svo hljóðandi brtt., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingismenn í Reykjavík skulu vera 5 og 1 þingmaður fyrir Hafnarfjarðarkaupstað. Þegar sú skipun er á komin, samkvæmt 12. gr., skulu sæti eiga í neðri deild Alþingis 30 þingmenn og í efri deild 14 þingmenn“.

Hjer er ekki talað um að taka annan þm. af Gullbringu- og Kjósarsýslu og fá hann Hafnfirðingum, heldur er farið fram á nýjan þingmann handa Hafnarfjarðarkaupstað.

Á Alþingi 1922 bar sami þm. fram svo hljóðandi frv.:

„1. gr. Hafnarfjarðarkaupstaður skal vera sjerstakt kjördæmi og hafa 1 alþingismann. Þegar þannig hefir bætst við 1 þingmaður, skal neðri deild Alþingis skipuð 29 þingmönnum. — 2. gr. Gullbringu- og Kjósarsýsla skal vera 2 kjördæmi, og kýs hvor sýslan um sig 1 þingmann. — 3. gr. Lög þessi koma til framkvæmda næst þegar almennar kosningar til Alþingis fara fram“.

Hvernig dettur nú hæstv. dómsmrh. í hug að bera fram svona blekkingar á Alþingi? Í frv. því, sem hjer liggur fyrir, er ekki talað um að bæta við þm. handa Hafnfirðingum. En jeg hefi lýst yfir því við 1. umr., að á það gæti jeg fallist. En nú hefir hæstv. dómsmrh. lýst yfir, að það vilji hann ómögulega. Jeg er hjer um bil viss um, að ef það væri til hagnaðar fyrir sósíalista eða framsóknarmenn, þá mundi ekki standa á honum. Þessum óheilindum og „partisku“ hefi jeg andstygð á. En hæstv. ráðh. hjelt, að hann gæti fleytt sjer þarna framhjá sannleikanum, af því að við íhaldsmenn hefðum ekki svigrúm til að andmæla eða leiðrjetta hinar röngu skýrslur hans. Það er venja hans að hegða sjer svona.

Þá sagði hæstv. ráðh., að jeg hefði verið andstæður ritsímamálinu. Það var jeg aldrei. En jeg var á móti því að leggja sæsímann. Jeg og Skúli Thoroddsen vildum fá loftskeyti. — Þetta veit hæstv. ráðh. vel, en hann leynir því.

Hinsvegar hefi jeg altaf verið á móti því að leggja járnbraut austur. Hæstv. dómsmrh. var heldur ekki meira með því máli í fyrra en svo, að hann sagðist aðeins fylgja því vegna þess, að það hjeldi uppi voninni hjá bændum fyrir austan. Sterkara var nú ekki fylgi hans sjálfs við málið. Annars rataðist hæstv. dómsmrh. þar satt af munni, að jeg er á móti járnbrautinni. Jeg hefi altaf verið það, og verð altaf meðan jeg lifi. Hvað kostar það að leggja járnbraut austur, og hvað kostar að reka hana? Jeg held, að það verði alt of dýrt. Hvað halda menn t. d., að það kostaði, þótt ekki væri nema að halda brautinni hreinni í annari eins færð og verið hefir að undanförnu yfir Hellisheiði? Það sjest, hvernig snjóplógnum hefir gengið. Það er áreiðanlegt, að ómögulegt verður að komast austur með járnbraut vissa tíma á hverjum vetri, nema því aðeins, að hún sje yfirbygð yfir alla Hellisheiði. En þá yrði hún þó að minsta kosti nothæf. — Jeg hefi ekki skift um skoðun í járnbrautarmálinu. Yfirleitt hefi jeg aldrei skift um skoðun í máli, sem jeg hefi sett mig inn í. En það er ekki siður minn, og hefir aldrei verið, að skifta mjer af öðrum málum.

Jeg þarf ekki að tala um þann sleggjudóm hæstv. ráðh., að jeg sje andstæður sveitabændum. Þetta er hann búinn að segja svo oft. En þrátt fyrir það hefi jeg traust bænda. Í Kjósarsýslu hefi jeg tiltölulega mjög mikið fylgi, og eins veit jeg, að margir bændur úti um land fylgja mjer að, málum. Svona er þetta þrátt fyrir mín skrif. Og það er einmitt fyrir þau, því að þar hefi jeg sagt bændum sannleikann. En hæstv. dómsmrh. þolir ekki, að satt sje sagt. Jeg hefði ekki farið að leggja fram fje úr eigin vasa til að koma bæklingi mínum út, ef jeg hefði ekki haldið, að það mætti verða bændum að gagni. Og jeg hefi hugsað mjer að halda þessu áfram. Jeg tel mikla nauðsyn að skrifa annað „Verslunarólag“, og jeg tel líklegt, að jeg geri það. Jeg mun ekki láta það hafa áhrif á mig, þótt í hverju tölublaði Tímans birtist um mig óhróðursgreinar. Hæstv. dómsmrh. stingur mjer ekki í vasann, hvað sem hann gerir við aðra. Sá tími mun og koma, að það sjest, að bændur hafa eins gott traust á mjer eins og hæstv. ráðh.

Þessum leiðrjettingum vildi jeg koma að, áður en málið færi frá hv. deild.