13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

1. mál, fjárlög 1929

Jörundur Brynjólfsson:

* Þegar þetta mál var til 1. umr. í deildinni, kom fram fyrirspurn til hæstv. forsrh. um afstöðu hans til fossafjelagsins Titans og hverju hann mundi svara Sjerleyfisbeiðni fjelagsins. Hæstv. forsrh. gaf þá þau svör, að sjerleyfisbeiðni fjelagsins lægi til athugunar hjá sjerfræðingum, sem stj. hefði kvatt sjer til aðstoðar, og fyr en þær athuganir lægju fyrir væri ekki unt að svara fyrirspurninni. Nú er alllöng stund liðin síðan, en svarið ókomið enn. Því vil jeg leyfa mjer að endurtaka þessa. fyrirspurn til hæstv. forsrh., en hún er á þessa leið:

Hvað líður sjerleyfisumsókn fossafjelagsins Titans, hvert er álit sjerfræðinganna um hana og hvað býst hæstv. forsrh. við að gera?

Í öðru lagi, ef hann telur málið þannig vaxið, að ekki sje unt að nota sjerleyfið, hvort hann búist þá við, að hægt sje að bæta úr því.

Í þriðja lagi vil jeg leyfa mjer að beina til hæstv. forsrh., að ef hann gerir ráð fyrir algerðri synjun frá stjórnarinnar hendi um að veita fossafjelaginu Titan þau rjettindi, er það fer fram á í umsókn sinni, hvað hæstv. stj. hafi þá hugsað sjer að gera viðvíkjandi fyrirgreiðslu fullkominna samgöngubóta austur yfir Hellisheiði.

Þessum fyrirspurnum vænti jeg, að hæstv. forsrh. svari nú þegar, og skal jeg því ekki eyða fleiri orðum að þeim að sinni.

En jeg vil taka undir þau ummæli, sem fram hafa komið í ræðum tveggja hv. þdm., að mjer finst hv. Ed. hafa sýnt lítinn skilning á málum bænda, er hún feldi niður styrkinn til Sláturfjelags Suðurlands. Að vísu má segja, að þarna sje um svo traustan og stóran fjelagsskap að ræða, að þessi upphæð, 10 þús. kr., skifti ekki miklu máli. En þegar um þær umbætur er að ræða, sem margt gott getur hlotist af, þá þarf þingið að sýna fullan skilning á málinu og ýta undir, að þær umbætur verði gerðar. Með því að lofa þessum litla styrk að standa í fjárlögunum var það ekki aðeins hvatning til fjelagsins, heldur og yfirlýsing þingsins um, að það teldi rjett, að sú tilraun yrði gerð, sem styrkurinn var bundinn við. Og þó að hv. Ed. hafi tekið þann kostinn að fella þennan litla styrk, þá verður ekki sagt, að hennar vegur hafi orðið meiri fyrir það.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.