07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3618 í B-deild Alþingistíðinda. (3340)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 3. landsk. sagði. Hann kvað lagaheimild mundu þurfa til að landið gæti látið verksmiðjurnar af höndum, ef brtt. sín yrði ekki samþ. Það álít jeg ekki vera nauðsynlegt, og ef svo reyndist, þá myndi ekki erfitt að fá þá lagaheimild. Háttv. þm. Ak. tók hinsvegar nokkuð djúpt í árinni, er hann kvað það vera skyldu að selja verksmiðjurnar, ef till. yrði samþ. En það er það enganveginn. Báðir þessir háttv. þm. líta einhliða á málið. Annar telur það lífsnauðsyn, að rekstur verksmiðjanna komist á hendur einstaklinga. Hinn telur það jafnmikla lífsnauðsyn, að ríkið reki þær. Þetta er ekkert aðalatriði fyrir mjer. Heldur er það höfuðatriðið að fá bætt úr því neyðarástandi, sem nú ríkið í síldarútveginum. þannig að þeir, sem hefja útgerð í byrjun vertíðar, þurfi ekki að hætta á miðri vertíð, sjer til stórtjóns, en geti haldið útgerðinni áfram. Annað er það, að með þessu er vonað, að verðið haldist, nokkurnveginn nálægt sannvirði. Þetta verður að vísu ekki trygt, þótt ein verksmiðja verði bygð; en vonandi er, að þetta fyrirtæki reynist það vel, að fært verði að fjölga þeim og innan fárra ára verði hættan að mestu horfin og atvinnuvegurinn tryggur orðinn. Jeg skal ekki fara frekar út í þetta; jeg álít sem sagt, að brtt. sje ofaukið og læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvort hún verður samþ. eða feld. sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Mjer skilst, að það hafi fengið svo góðar undirtektir, að því sje ekki hætta búin, og get jeg því látið úttalað um það að sinni.