03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3736 í B-deild Alþingistíðinda. (3442)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það er alveg rjett, að þessi ákvæði munu ekki hafa raunverulega þýðingu fyrir næsta þing, en hitt er og rjett, að nú eru hjer í deildinni næg atkvæði til, að brtt. mín verði nú samþ., ef þm. eru allir viðstaddir, en mjer er ekki unt að segja með vissu, hvað kann að verða á næsta þingi. Auk þess sem stöðugar lagabreytingar eru óviðunandi. Jeg held því, að krafa mín sje á fullri sanngirni bygð. En hæstv. stj. væri nær að athuga það, að þegar málið var til einnar umr. í hv. Ed., þá breytti sú deild sinni fyrri afstöðu eingöngu vegna krafna jafnaðarmanna, og finst mjer það fulllangt gengið að krefjast þess, að þessi hv. deild geri slíkt hið sama. Til þess að sjá málinu borgið, þurfti hv. Ed. ekki annað en að standa við sína fyrri stefnu í því, en nú á að neyða þessa hv. deild til að hverfa frá sinni fyrri skoðun. Held jeg því fast við ósk mína.