02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4236 í B-deild Alþingistíðinda. (3681)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Haraldur Guðmundsson:

Á þskj. 283 á jeg nokkrar brtt., sem jeg vildi gera stuttlega grein fyrir.

Það er þá fyrst brtt. 1.a, við 5. gr., að í stað orðsins „kjörstjóra“ í síðasta málslið fyrstu málsgreinar komi: kjörstjórn. Jeg drap á það við 2. umr. þessa máls, að mjer fyndist það tryggara og enda sjálfsagt til enn frekara öryggis, að þar sem atkvæðakassinn, sem brjefin eru varðveitt í, er innsiglaður, þá sje það ekki sami maðurinn, sem innsiglar hann og varðveitir. Nú er fram komin brtt. á þskj. 289, frá hv. þm. N.-Ísf., við þennan lið brtt. minnar, þar sem gert er ráð fyrir því, að það sje ekki öll kjörstjórnin, heldur kjörstjóri og einn maður úr kjörstjórn, sem innsigli kassann, Get jeg gengið inn á þessa till. og tel hana jafnvel til bóta að mun.

Þá er það b-liður þessarar sömu brtt., þar sem ákveðið er, að þeir kjósendur, sem greiða atkvæði hjá hreppstjóra eða bæjarfógeta í þeim hreppi eða kaupstað, þar sem þeir standa á kjörskrá, og skilja þar eftir brjef með atkvæði sínu, skuli sjálfir láta brjefin í atkvæðakassann. Jeg tel nauðsynlegt, að þetta ákvæði standi, ef þetta frv. verður að lögum, og ekki nema sjálfsagt, að kjósandi láti sjálfur seðil sinn í kassann, ef hann er staddur innan síns kjördæmis og vill skilja þar brjef sitt eftir.

Þá er 2. brtt. á sama þskj., við 6. grein. Sú breyting, sem í henni felst á frv. eins og frá því var gengið við 2. umr., er, að í stað þess að opna umslögin áður en atkvgr. byrjar, er nú gert ráð fyrir, að það sje gert að atkvæðagreiðslu lokinni. Ástæðan til þessa er sú, að þegar mikið er um utankjörstaðaratkvæði, þá fer alllangur tími í það að opna umslögin, svo að það kemur oft fyrir, að ekki er hægt að byrja sjálfa kosningarathöfnina fyr en orðið er áliðið dags. Mjer er kunnugt um, að svo hefir oft orðið t. d. á Ísafirði, og kjörstjórn þar spurði eitt sinn stjórnarráðið að því, hvort ekki mætti láta bíða að opna atkvæðaumslögin þangað til að kosningu lokinni. En stjórnarráðið svaraði því neitandi, svo að þar hefir venjulega ekki verið hægt að byrja atkvæðagreiðslu fyr en kl. 3–4 síðd. Þetta er mjög bagalegt fyrir alla hlutaðeigendur, og jeg fyrir mitt leyti fæ ekki sjeð neitt, sem mæli á móti því, að beðið sje með að opna umslögin þangað til að kosningu lokinni.

Nú hefir hv. þm. A.-Sk. felt þessa brtt. mína inn í sína brtt. á þskj. 318. Við það verður greinin fyllri, og get jeg því tekið mína brtt. aftur, ef hans nær samþykki. Þá er 2. brtt. háttv. þm. A.-Sk. um nýja málsgr. eftir 3. málsgr. 4. gr., á þá leið, að ef kjörseðill ónýtist hjá kjósanda, megi hann fá annan í hans stað, en hinn ónýti sje látinn í sjerstakt umslag og sendur undirkjörstjórn ásamt hinum gildu atkvæðum. Jeg er mjög meðmæltur þessari brtt. og tel hana til bóta. Jeg tel og rjettara, að hún sje feld inn í 4. gr., eins og hv. þm. (ÞorlJ) gerir ráð fyrir, heldur en t. d. í 9. gr. Bein afleiðing af því verður, að orðin „heimilt er þó ... ónýta hann“ í 9. gr. falla burt, svo sem segir í 4. brtt. hv. þm. En jeg vil þó geta þess í sambandi við 2. brtt., að jeg teldi rjettara, að ógildu atkvæðin væru send til þeirra aðilja, sýslumanna eða bæjarfógeta, sem hafa úthlutað þeim, heldur en til undirkjörstjórna. Jeg geri þetta að vísu ekki að neinu kappsmáli, en jeg tel, að betur hefði farið á því. Fleira hefi jeg svo ekki um þessar brtt. að segja.