14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

6. mál, laun embættismanna

Halldór Stefánsson:

Jeg held fast við þá skoðun, að rjett sje að ganga að frv. óbreyttu eins og það kom frá stjórninni og eins og það var samþ. hjer við 2. umr. Því er jeg á móti báðum brtt. Mismuninn á launum embættismanna í sveitum og kaupstöðum má líta á sem staðaruppbót, enda þótt hann væri ef til vill ekki hugsaður svo í upphafi. Við 2. umr. kom fram bending til stjórnarinnar um það, hvort ekki væri rjett að hafa ýmiskonar uppbætur í lögunum, þegar þau væru endurskoðuð. Það álíta margir, að svo eigi að vera. Þess vegna álít jeg óþarft að vera nú að afnema þann litla vísi til staðaruppbótar, sem er í gildandi lögum.

Jeg er alveg andvígur því að taka málið af dagskrá, eins og jeg hefi áður sagt. Hjer er um svo einföld atriði að ræða, að það verður að teljast algerlega óþarft, enda eru flestir fjhn.-menn þegar búnir að lýsa afstöðu sinni til málsins. Ef málið yrði tekið af dagskrá, yrði það aðeins til dráttar. Þótt málið sjálft væri máske ekki í neinni hættu fyrir þetta, þá tefur það þó þingstörfin. Ef tekin væri upp sú venja að vísa málum jafnan að nýju til nefndar, þegar fram koma brtt. við þau, hversu einfaldar og smávægilegar sem þær till. eru, þá yrði það til að tefja mjög afgreiðslu mála og lengja þingin, og jeg gæti trúað, að það yrði til að lengja heldur umræðurnar á Alþingi, og veit jeg þó ekki betur en að þær þyki þegar nógu langar. — Mjer virðist ekki heldur líklegt, að málið gæti komið á dagskrá aftur á morgun, ef það væri nú tekið út. Í dag er ekki reglulegur nefndarfundur, og ef marka má af reynslunni, verður ekki gott að ná mönnum saman á aukafund. Svarið er venjulega, þegar þess er farið á leit: „Konu hefi jeg mjer festa“ o. s. frv. Enda myndi það lítill tími fyrir suma nefndarmenn að fá ekki nema einn sólarhring, ef þeir þyrftu að fara út í bæ og spyrja „vitra menn“ ráða, áður en þeir tækju óbreytanlega afstöðu. En það sýnist hafa komið fyrir suma í þessari nefnd.

Jeg vil ekki blanda mjer mikið í þrætu þá, er hjer hefir fram farið milli tveggja nefndarmanna. Jeg hefi áður skýrt frá, hvernig í því máli lá. Auðvitað var það síst að furða, þótt sumum þætti skrítið, að einstakir nefndarmenn óskuðu að breyta afstöðu sinni eftir á, þegar þeir höfðu öðlast æðri þekkingu úti í bæ. Það var ekki „af nefndinni samþykt“, að tveir nefndarmenn mættu gera fyrirvara, eins og hv. 2. þm. G.-K. sagði, heldur var svo um talað, að það skyldi óátalið af nefndinni.