11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

14. mál, hjúalög

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu nú. En það getur verið, að jeg geri brtt. við þetta frv. við 3. umr. Ástæðan til þess að jeg kvaddi mjer hljóðs er sú, að jeg vildi bera fram fyrirspurn til hæstv. atvmrh.

Á síðasta þingi var samþykt þál. um að skora á ríkisstjórnina að endurskoða vinnuhjúatilskipunina frá 1866 og koma með till. um breytingar á henni. Þetta hefir hæstv. stjórn gert. En þál. fól í sjer tvö önnur atriði, sem sje það, að endurskoða lög um lausamenn og þurrabúðarmenn, nr. 60, 22. nóv. 1907, einkum fyrirmæli þau, er lúta að skyldu manna til að eiga lögheimili, og að taka til athugunar, hvort ekki sje tiltækilegt að setja lagaákvæði, er gefi sveitar- og bæjarfjelögum rjett til að takmarka innflutning fólks, sem hætta er á, að verði þeim til byrði.

Nú vildi jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. ráðh., hvað hann ætli sjer að gera með tilliti til tveggja síðustu liða þingsályktunarinnar.